Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

21.04.2020 - 21.04.2020

Ársþing HHF 2020

Ársþing Héraðssambandsins Hrafna-Flóka verður...
28.04.2020 - 28.04.2020

Árþing ÍBA 2020

Ársþing Íþróttabandalags Akureyrar verður...
2

COVID-19 og íþróttahreyfingin

Fréttatilkynning frá ÍSÍ 24. mars 2020 til sambandsaðila ÍSÍ

Greiðslur atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli

Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp félags- og barnamálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, um rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda.
Jafnframt hefur Alþingi samþykkt lög um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir.
Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun þá gildir þetta úrræði meðal annars fyrir launþega og vinnuveitendur innan íþróttahreyfingarinnar og vill ÍSÍ vekja athygli íþróttahreyfingarinnar á þessum stuðningi við starfsemi hreyfingarinnar.

Minnkað starfshlutfall:
Sjálfstætt starfandi einstaklingar geta nú þegar sótt um en þeir fylla út hefðbundna umsókn um atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun leggur nú kapp á að vinna að stafrænni útfærslu fyrir umsókn launamanna og er ekki hægt að sækja um minnkað starfshlutfall á vef Vinnumálastofnunar meðan á þeirri vinnu stendur.

Athugið að launamenn geta ekki sótt um þessar greiðslur í augnablikinu þar sem umsóknarformið er ekki tilbúið. Atvinnurekendur geta enn fremur ekki skilað inn nauðsynlegum staðfestingum frá sér þar sem stafræn lausn þar að lútandi er ekki tilbúin.Vinnumálastofnun mun gefa út tilkynningu þegar umsóknargrunnurinn er tilbúinn og einstaklingar sem fara í minnkað starfshlutfall geta sótt um. Allar umsóknir munu gilda afturvirkt frá 15. mars.

Fólk er vinsamlegast beðið um að sýna biðlund vegna mikils álags á skrifstofu Vinnumálastofnunar og hvatt til að fylgjast með tilkynningum á heimasíðu stofnunarinnar.

Greiðslur í sóttkví:
Unnið er að tæknilegum lausnum vegna greiðslna í sóttkví. Um leið og það ferli skýrist nánar og lausnirnar verða tilbúnar mun Vinnumálastofnun birta tilkynningar þess efnis á vef stofnunarinnar.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar. ÍSÍ hvetur íþróttahreyfinguna til að fylgjast vel með þeim uppfærslum sem þar munu birtast og hefja strax undirbúning umsókna, ef fyrirhugað er að nýta þetta úrræði.
Hér eru vefslóðir á helstu upplýsingar skv. ofangreindu:

Vinnumalastofnun.is/upplysingar-vegna-covid-19/minnkad-starfshlutfall

Vinnumalastofnun.is/upplysingar-vegna-covid-19/greidslur-i-sottkvi

Vinnumalastofnun.is/upplysingar-vegna-covid-19/spurt-og-svarad-vegna-covid-19


 

Fréttatilkynning frá ÍSÍ 22. mars 2020 til sambandsaðila ÍSÍ

Heilbrigðisráðherra kynnti í gær að á miðnætti í dag, þann 23. mars kl. 24:00 tekur í gildi hert samkomubann.

Það þýðir að allar samkomur eru takmarkaðar við 20 manns hvort heldur er í opinberum rýmum eða einkarýmum og jafnframt er krafa um að tveggja metra fjarlægðarviðmiðinu sé framfylgt. Hreinlæti og sóttvörnum skal fylgt eftir sem áður.

Hér er að finna fyrirmælin í heild sinni, vinsamlegast kynnið ykkur þau vel.

Hér er að finna leiðbeiningar fyrir áhættuhópa og einstaklinga sem eru í umgengni við þá sem teljast í áhættuhópi.

Bæði skjölin er að finna á www.covid.is á íslensku, ensku og pólsku.

 

Fréttatilkynning frá ÍSÍ og UMFÍ 20. mars 2020 til sambandsaðila ÍSÍ

Allt íþróttastarf fellur niður

Heilbrigðisráðuneytið, í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið, hefur sent frá sér leiðbeinandi viðmið um hvernig beri að túlka auglýsingar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar og takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar þegar kemur að íþrótta- og æskulýðsstarfi barna, ungmenna og fullorðinna.

Hvað varðar íþróttastarf barna og ungmenna er eftirfarandi beint til íþróttahreyfingarinnar:

„...að virtum þeim sjónarmiðum og skýringum sem fram hafa komið af hálfu ÍSÍ og ýmissa annarra samtaka sem sinna íþrótta- og æskulýðsstarfi mælast heilbrigðisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneyti til þess að hlé verði gert á öllu íþrótta- og æskulýðsstarfi barna og ungmenna, sem felur í sér blöndun hópa, nálægð við aðra og snertingu, þar til takmörkun skólastarfs lýkur."

Hvað varðar íþróttaiðkun fullorðinna þá er eftirfarandi beint til til íþróttahreyfingarinnar:

„...er þeim tilmælum beint til ábyrgðaraðila og skipuleggjenda annars íþrótta- og æskulýðsstarfs að með sama hætti verði gert hlé á starfi sem felur í sér snertingu eða nálægð milli iðkenda sem er minni en 2 metrar, í samræmi við þær meginreglur sem fram koma í auglýsingu um takmörkun á samkomum og á meðan þær takmarkanir eru í gildi."

Jafnframt hvetja ráðuneytin skipuleggjendur íþróttastarfs til að halda uppi félagsstarfi með því að nýta sér tæknina til að halda utan um sína hópa og vera í sambandi við iðkendur og hvetja þá til virkni og hreyfingar eftir því sem við á.

Eftirfarandi árétting barst frá sóttvarnalækni í dag í tilefni útgáfu leiðbeinandi viðmiða frá heilbrigðisráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti:

„Sóttvarnalæknir vill árétta að í auglýsingum heilbrigðisráðherra um samkomubann og um takmarkanir á skólastarfi er fjallað um að nálægð einstaklinga verði ekki minni en tveir metrar ef því er við komið. Einnig er ljóst að með vísan í leiðbeiningar um almennar sóttvarnaráðstafanir t.d. varðandi hreinlæti og smitleiðir að sameiginleg notkun á hverskonar búnaði til íþróttaiðkunar boltum, dýnum, rimlum, handlóðum, skíðalyftum og margs fleira án góðrar sótthreinsunar á milli notkunar einstaklinga er mjög varasöm og ekki í anda fyrirmæla um sóttvarnir.
Því er augljóst að í flestum íþróttum er nánast ómögulegt að æfa eða keppa.
Sóttvarnalæknir vill beina því til Íþrótta- og ólympíusambands Íslands að, líkt og gert hefur varðandi börn og ungmenni, að tekið verði hlé í æfingum og keppnum á vegum sambandsins og aðildarfélaga þeirra á meðan samkomubann varir.“ (birt á Facebook síðu Almannavarna).

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og UMFÍ treysta því að öll íþróttahreyfingin muni fara að þessum afgerandi tilmælum og að allt íþróttastarf falli tímabundið niður.
Það er augljóslega ekki auðvelt fyrir íþróttahreyfinguna en við þessar aðstæður er mjög mikilvægt að þjóðin standi saman sem einn maður og að íþróttahreyfingin sýni fulla samstöðu og ábyrgð.

Við viljum jafnframt minna á mikilvægi þess að landsmenn haldi áfram að hreyfa sig þrátt fyrir að skipulagt íþróttastarf sé ekki til staðar. Þá er mikilvægt að félögi haldi áfram að þjónusta sína iðkendur með þeim hætti sem mögulegt er, með fjar- og heimaæfingum.

Leiðbeiningar frá ráðuneytunum í heild sinni er að finna hér

 

Tilkynning frá ÍSÍ 15. mars til sambandsaðila ÍSÍ - English version here

Íþróttastarfið í samkomubanni (pdf)

Í samskiptum ÍSÍ við landlækni, sóttvarnalækni og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur komið fram að vegna mikill anna við að koma af stað starfi í leik- og grunnskólum landsins, í samræmi við þær reglur um nú gilda, hefur ekki náðst að ljúka undirbúningi fyrir þátttöku leik- og grunnskólabarna í íþróttastarfi. Því má gera ráð fyrir því að röskun verði á íþróttastarfi næstu daga þangað til íþróttafélög, skólasamfélagið og sveitarfélög hafa komið sér niður á lausnir til að halda úti starfi með þeim takmörkunum sem munu gilda næstu fjórar vikurnar. Í samskiptum við ofangreinda aðila hefur komið fram að til að unnt sé að undirbúa þetta verkefni og útfæra þær takmarkanir sem nú eru í gildi með fullnægjandi hætti væri heppilegt að gera ekki ráð fyrir því að íþróttastarf fyrir þennan aldurshóp fari af stað fyrr en mánudaginn 23. mars nk. ÍSÍ mælist til að farið verði eftir þessum tilmælum.

Varðandi íþróttaiðkun fullorðinna, þá er litið svo á að hún sé heimil að uppfylltum skilyrðum sem koma fram í auglýsingu heilbrigðisráðherra um samkomubann, þ.e. að ekki séu fleiri en 100 einstaklingar inn í sama rými, hvort sem um er að ræða innan- eða utandyra. Þá skal sjá til þess, eftir því sem unnt er, að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga, gera ráðstafanir til að þrífa eða sótthreinsa búnað eða æfingasvæði daglega og tryggja aðgengi að hreinlætisaðstöðu til handþvotta og sótthreinsunar. Ljóst er að þessi skilyrði munu útiloka æfingar fjölmargra íþróttagreina. Íþróttafélögin, hvert fyrir sig, þurfa að koma því á framfæri við sína iðkendur og félagsmenn hvað af íþróttastarfsemi þeirra þau telja að geti farið fram að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram hafa komið. Rétt er að ítreka að það á ekki að gefa neinn afslátt af þeim kröfum sem yfirvöld hafa sett fram til að sporna við útbreiðslu þessarar veiru.

Við lifum nú fordæmalausa tíma og það er mikilvægt að allir taki höndum saman um að gera þá eins bærilega og kostur er. Sóttvarnalæknir, landlæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hafa unnið mjög gott starf við að bregðast við þeirri vá sem að okkur sækir. Með samstöðu og því að allir fylki sér að baki þeirra reglna sem þessi embætti hafa gefið út má því ætla að við eigum að geta komist í gegnum þennan tíma á eins farsælan hátt og mögulegt er.

ÍSÍ er í stöðugu sambandi við yfirvöld og mun deila út til íþróttahreyfingarinnar upplýsingum um leið og þær berast. ÍSÍ hvetur sambandsaðila sína, eftir sem áður, að fylgjast vel með þróun mála á upplýsingasíðum yfirvalda. Atburðarrás er hröð þessa dagana og gefa verður svigrúm til að láta reyna á útfærslur og túlkun nýrra reglna. Reynt verður að miðla upplýsingum til íþróttahreyfingarinnar um leið og nýjar upplýsingar koma fram.  

 

Tilkynning frá ÍSÍ 13. mars til sambandsaðila ÍSÍ

Frá og með mánudeginum 16. mars kl. 00:01 mun taka gildi samkomubann á landinu sem gilda mun í fjórar vikur eða til og með 12. apríl nk. Þetta bann hefur víðtæk áhrif á íþróttahreyfinguna því í takmörkuninni felst að fjöldasamkomur eru óheimilar á gildistíma bannsins. Með fjöldasamkomum er átt við þegar 100 einstaklingar eða fleiri koma saman, hvort sem er í opinberum rýmum eða einkarýmum. Íþróttaviðburðir falla þarna undir. Í takmörkuninni felst einnig að á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi skuli eftir því sem unnt er, rými skipulögð með þeim hætti að hægt sé að hafa a.m.k. tvo metra á milli einstaklinga.

Auglysing um takmorkun a samkomum vegna farsottar.pdf

Takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar mun taka gildi 16. mars og gildir til 12. apríl nk. Heimilt er að halda uppi skólastarfi í skólabyggingum að þeim skilyrðum uppfylltum að ekki séu fleiri en 20 nemendur í kennslu í sömu stofu og að nemendur blandist ekki á milli hópa. 

Auglysing um takmorkun a skolastarfi vegna farsottar.pdf