Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

16.05.2024 - 16.05.2024

Ársþing FSÍ 2024

Ársþing Fimleikasambands Íslands (FSÍ) verður...
15

Forvarnardagurinn 2020

07.10.2020

„Mikilvægast er að finna það sem vekur áhuga hvers og eins. Hvetjum börn og ungmenni til virkrar þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Þau ungmenni eru líklegri til að ná árangri, hvort sem um ræðir íþróttir, tónlist, starf með skátum, félagsmiðstöðum eða í ungmennahúsum,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Forvarnardagurinn 2020 er haldinn í flestum grunn- og framhaldsskólum á Íslandi í dag, miðvikudaginn 7. október. Dagurinn var haldinn í fyrsta sinn árið 2006 og hefur síðan þá verið haldinn á hverju ári í október. Þennan dag er sjónum alltaf beint að nemendum í 9. bekk í grunnskóla og á fyrsta ári í framhaldsskóla.

Á Forvarnardaginn ræða nemendur um nýjustu niðurstöður rannsókna R&g á þeirra aldurshópi og hugmyndir um samveru, íþrótta- og tómstundastarf og því að leyfa heilanum að þroskast og hvaða áhrif þessir verndandi þættir hafa á líf þeirra. Þau vinna í hópavinnu og skrá hugmyndir sínar; síðan er svörum safnað saman til að finna samnefnara í umræðum þeirra. Þá gefst þeim kostur á að taka þátt í leik þar sem þau vinna með þá þætti sem dregið geta úr áhættuhegðun. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum síðar á árinu.

„Forvarnardagurinn hefur frá upphafi vakið athygli á forvarnargildi þátttöku barna og ungmenna í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Rannsóknir sýna að það er ekki einungis íþróttaiðkunin sjálf sem felur í sér forvarnargildi, heldur skiptir hið skipulagða starf og umgjörðin í íþróttafélögunum miklu máli. Hvetjum börn og ungmenni til þess að taka þátt í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Gleðilegan Forvarnardag!“ segir Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri Íþrótta-og Ólympíusambands Íslands

„Niðurstöður rannsókna sýna ótvírætt forvarnargildi þess að halda börnum í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Hingað kemur fjöldi fólks frá erlendum sveitarstjórnum, frá Norðurlöndunum og Suður-Ameríku, til að kynna sér starfið. Þetta er nefnilega alveg magnað,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.

Á vefsíðunni forvarnardagur.is er hægt að sjá nýtt myndband sem Sahara bjó til í tilefni dagsins. Þar er rætt við ungmenni í ungmennaráðum um gildi íþróttaiðkunar og samveru með fjölskyldum, forseta Íslands og fleiri.

Að Forvarnardeginum stendur Embætti landlæknis í samstarfi við embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Skátana, Ungmennafélag Íslands, Rannsóknir og greiningu, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samstarf félagasamtaka í forvörnum, Samfés og Heimili og skóla.



Myndir með frétt