Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

19

Heiðranir á ársþingi UMSK

04.04.2023

 

Þriðjudaginn 28. mars fór fram þing Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK) í veislusal Golfklúbbsins Odds á Urriðavelli og var það vel sótt. Farið var yfir hefðbundin störf, s.s. árskýrslur, skýrslu stjórnar og fleira.  Kosið var í stjórn UMSK og urðu tvær breytingar.  Geirarður Long kom inn í stjórnina í stað Péturs Arnar Magnússonar, sem ekki gaf kost á sér að þessu sinni og kom Sigurjón Sigurðsson inn í varastjórn í stað Geirarðs.  Guðmundur G. Sigurbergsson er formaður UMSK.
Á þinginu voru fjölmargar heiðranir á vegum UMSK, t.d. var Íþróttakarl UMSK valinn Höskuldur Gunnlaugsson og Íþróttakona UMSK Sóley Margrét Jónsdóttir.  Lið ársins var meistaraflokkur Breiðabliks í knattspyrnu. 

Hafsteinn Pálsson, 2. varaforseti ÍSÍ, Olga Bjarnadóttir og Garðar Svansson, meðstjórnendur í framkvæmdastjórn, mættu fyrir hönd ÍSÍ og ávarpaði Hafsteinn þingið.  Þar afhentu þau Einari Kristjáni Jónssyni, Breiðabliki, Lárusi B. Lárussyni, Gróttu, og Þorsteini Þorbergssyni, Stjörnunni, Gullmerki ÍSÍ fyrir störf sín í þágu íþróttanna. Silfurmerki ÍSÍ fengu Ása Dagný Gunnarsdóttir, Aftureldingu, Einar Tómasson, HK, Hólmfríður Kristjánsdóttir, HK, Jóhann Þ. Jónsson, Breiðabliki, og Kristján Guðlaugsson, Gróttu. 

ÍSÍ óskar heiðursmerkjahöfunum innilega til hamingju með viðurkenningarnar!

Meðfylgjandi myndir eru af þinginu og þar má sjá handhafa Gullmerkjanna með fulltrúum ÍSÍ annars vegar og hins vegar handhafa Silfurmerkjanna með fulltrúum ÍSÍ.  Þá má sjá Hafstein Pálsson ávarpa þingið og Olgu Bjarnadóttur afhenda Ásu Dagnýju Gunnarsdóttur Silfurmerkið.  

Nánari upplýsingar af þinginu er að finna á umsk.is

 

Myndir með frétt