Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12.11.2024 - 12.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
3

Íþróttafólk sérsambanda 2018

Hnefaleikamaður ársins

Emin Kadri Eminsson

Hnefaleikamaður ársinsEmin er 16 ára og byrjaði að stunda hnefaleika 9 ára. Hann sýndi strax mikinn áhuga á íþróttinni og tók þátt á fjölmörgum diplómamótum með góðum árangri. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Emin unnið til fjölmargra verðlauna á Íslandi og erlendis og er fyrsti Íslendingurinn til að vinna alþjóðamót í hnefaleikum. Emin er einn efnilegasti hnefaleikamaður Íslands og sést það í staðfestu hans og ákveðni í að ná langt í íþróttinni í metnaði á æfingum og keppnum.Helstu afrek Emins Kadri í hnefaleikum:Gullverðlaun á ACBC í Gautaborg 2017 Íslandsmeistari í hnefaleikum 2017 og 2018Bensabikarinn 2018 besti boxari ÍslandsmeistaramótsinsGullverðlaun Boxam Murcia 2018 Gullverðlaun Olaine Box Cup Lettland 2018Bronzverðlaun Riga Open 2018

Hnefaleikakona ársins

Kristín Sif Björgvinsdóttir

Hnefaleikakona ársinsKristín Sif byrjaði af krafti að æfa með keppnisliðinu árið 2017. Á því ári fóru fyrstu tveir bardagar hennar fram. Þriðji bardagi hennar fór fram á Norðurlandamótinu í Noregi á þessu ári á móti Julie Holte frá Svíþjóð. Í þeim bardaga sýndi Kristín mikla yfirburði og stjórnaði hún bardaganum allt frá upphafi fyrstu lotu. Þann bardaga sigraði Kristín eftir einróma dómaraákvörðun og varð þar með fyrsta íslenska konan til að sigra bardaga á þessu sterka móti. Hafði hún þar með unnið sér sæti í úrslitaviðureign þar sem hún mætti hinni reynslumiklu Love Holgersson. Kristín Sif gaf Holgersson ekkert eftir og stóð hún allar 3 loturnar. Bardagann sigraði Holgersson á stigum. Kristín stóð uppi með silfur á mótinu og er fyrst Íslendinga til að vinna til verðlauna á þessu móti. Kristín hefur keppt sex bardaga á rétt rúmu ári og er bara rétt að byrja.

Badmintonkona ársins

Margrét Jóhannsdóttir

Badmintonkona ársinsMargrét varð Íslandsmeistari í einliðaleik þriðja árið í röð og Íslandsmeistari í tvíliðaleik ásamt Sigríði Árnadóttur annað árið í röð. Margrét hefur verið mjög mikilvæg fyrir A-landsliðið síðastliðin ár og á hún að baki 15 A-landsleiki en fyrsta A-landsleikinn spilaði hún árið 2013, þá 18 ára gömul. Margrét er hæst á styrkleikalista Badmintonsambandsins í tvíliða- og tvenndarleik. Margrét var færð í meistaraflokk aðeins 16 ára gömul en hún á að baki fjöldan allan af Íslandsmeistaratitlum í unglingaflokki, sem og í A- og B flokki. Margrét er sem stendur í 293. sæti heimslistans í tvíliðaleik ásamt Sigríði Árnadóttur. Í tvenndarleik er hún í 371. sæti heimslistans ásamt Kristófer Darra Finnssyni. Margrét hefur spilað á fimm alþjóðlegum mótum á árinu en listinn er byggður á tíu bestu mótum leikmanns á einu ári.

Badmintonmaður ársins

Kári Gunnarsson

Badmintonmaður ársinsKári varð Íslandsmeistari í einliðaleik sjöunda árið í röð og í 2. sæti í tvenndarleik. Kári hefur verið mikilvægur í A-landsliði Íslands undanfarin ár og spilar jafnan fyrsta einliðaleik karla í landsleikjum. Kári spilaði sinn fyrsta A-landsleik árið 2010, þá aðeins 19 ára gamall, en hann hefur spilað 23 A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Kári tók þátt í Evrópukeppni einstaklinga á Spáni í apríl. Kári stefnir á þátttöku á Ólympíuleikunum 2020 en það er heimslistinn sem ræður hverjir öðlast keppnisrétt. Kári hefur tekið þátt í 17 alþjóðlegum mótum á árinu og hefur hann náð að vinna sig mikið upp heimslistann í einliðaleik. Í byrjun árs var hann í 523. sæti heimslistans en er núna í 172. sæti listans. Listinn er byggður á tíu bestu mótum leikmanns á einu ári. Kári flutti til Spánar á árinu þar sem hann stundar æfingar en áður bjó hann í Danmörku.

Borðtenniskona ársins

Stella Karen Kristjánsdóttir

Borðtenniskona ársinsStella Karen varð Íslandsmeistari fullorðinna í kvennaflokki aðeins 16 ára gömul og náði þeim markverða árangri að verða bæði Íslandsmeistari í 1. flokki og meistaraflokki á sama ári. Áður hafði hún orðið margfaldur Íslandsmeistari í yngri flokkum. Hefur hún tekið stórstígum framförum undanfarið og tekið þátt í sínum fyrstu landsliðsverkefnum í fullorðinsflokki. Stella Karen er fylgin sér, harðdugleg og glæsileg fyrirmynd.

Borðtennismaður ársins

Magnús Gauti Úlfarsson

Borðtennismaður ársinsMagnús Gauti varð Íslandsmeistari fullorðinna í karlaflokki aðeins 17 ára gamall en áður varð hann margfaldur Íslandsmeistari í yngri flokkum. Hann náði í 16 manna úrslit á Norður-Evrópumóti fullorðinna og varð hann í 8. sæti í flokki 16-18 ára á mótinu. Þrátt fyrir ungan aldur er hann burðarás í íslenska karlalandsliðinu og lék á árinu m.a. á Evrópumóti unglinga í Rúmeníu og Evrópumóti fullorðinna á Spáni. Magnús er góð fyrirmynd og frábær liðsfélagi.

Tenniskona ársins

Hera Björk Brynjarsdóttir

Tenniskona ársinsHera Björk varð Íslandsmeistari kvenna utanhúss 2018. Hún er við nám og keppir fyrir tennislið Valdosta State háskólans í Valdosta, Georgiu, Bandaríkjunum.

Tennismaður ársins

Anton Jihao Magnússon

Tennismaður ársinsAnton er nr. 1.657 á heimslista atvinnumanna í einliðaleik og er annar tveggja Íslendinga og jafnframt sá yngsti til að komast inn á heimslista atvinnumanna í einliðaleik. Það gerði hann með sigri í 1. umferð á ITF atvinnumannamóti í Egyptalandi 10. maí 2018. Hann hefur unnið þrjá einstaklinga sem eru á heimslistanum í ár. Í HM karlalandsliðskeppni Davis Cup í Plovdiv í Búlgaríu s.l. apríl vann hann tvo af þremur leikjum sínum.

Skvasskona ársins

Rósa Jónsdóttir

Skvasskona ársinsRósa hefur árum saman verið besti skvassspilari Íslands í kvennaflokki og hún hefur bætt sig mikið á árinu. Rósa er alltaf jákvæð og er góð fyrirmynd bæði innan vallar sem utan.

Skvassmaður ársins

Róbert Fannar Halldórsson

Skvassmaður ársinsRóbert Fannar er Íslandsmeistari í skvassi og vann öll mót sem hann tók þátt í á árinu. Róbert spilaði sem nr. 1 á Evrópumóti landsliða í Riga 2018 og vann þar fjóra leiki. Róbert er skvassíþróttinni til sóma og er til fyrirmyndar innan vallar sem utan.

Blakkona ársins

Thelma Dögg Grétarsdóttir

Blakkona ársinsThelma Dögg leikur með UKF NITRA í Slóvakíu en lék á síðasta tímabili með VBC Galina frá Liechtenstein í úrvalsdeildinni í Sviss. Thelma var burðarás í Galina allt síðasta keppnistímabil og endaði liðið í 8. sæti. Jafnframt var liðið í áskorendakeppni Evrópu. Hún fluttist til Slóvakíu í haust og hefur átt frábæra byrjun með UKF NITRA, en hún er stigahæsti leikmaður liðsins. Liðið er í 4. sæti eftir 13 leiki. Thelma er einnig burðarás í íslenska landsliðinu sem tekur þátt í undankeppni Evrópumóts landsliða um þessar mundir. Thelma er frábær blakari og fyrirmyndar íþróttakona. Hún stundar sína íþrótt af miklum metnaði og er jafnt liðsfélögum og yngri blakiðkendum frábær fyrirmynd.

Blakmaður ársins

Kristján Valdimarsson

Blakmaður ársinsKristján er einn af burðarásum í félagsliði sínu í Tromsö sem situr í 3. sæti norsku úrvalsdeildarinnar. Liðið vann silfur í norsku bikarkeppninni og brons í norsku úrvalsdeildinni. Liðið endaði í 3. sæti í Norður-Evrópukeppni félagsliða og er komið áfram í úrslit NEVZA keppni félagsliða sem fram fer í lok janúar. Kristján er meðal bestu miðjumanna í norsku úrvalsdeildinni og meðal stigahæstu leikmanna í hávörn á þessu tímabili. Kristján er einn af burðarásum karlalandsliðs Íslands sem tók stórt skref á árinu og hóf keppni í undankeppni Evrópumóts landsliða. Kristján hefur nú leikið 70 landsleiki og er meðal 7 leikjahæstu leikmanna Íslands frá upphafi. Frammistaða hans með landsliðum Íslands er til fyrirmyndar.

Kylfingur ársins

Valdís Þóra Jónsdóttir

Kylfingur ársinsValdís Þóra lék á sínu öðru tímabili í röð á LET Evrópumótaröðinni, sem er sterkasta mótaröð í Evrópu hjá atvinnukylfingum í kvennaflokki. Hún endaði í 38. sæti á stigalistanum, sem er besti árangur hennar á LET. Hún komst í gegnum niðurskurðinn á 5 mótum af alls 12 sem hún tók þátt í. Besti árangur hennar var 3. sæti á LET-móti í Ástralíu, sem er jafnframt besti árangur sem íslenskur kylfingur hefur náð á atvinnumóti í golfi í efsta styrkleikaflokki. Hún tryggði sér snemma á tímabilinu áframhaldandi keppnisrétt á mótaröðinni. Valdís lék einnig á þremur mótum á LET Access atvinnumótaröðinni, sem er næst sterkasta atvinnumótaröð í Evrópu. Hún var í fjögurra manna liði Íslands sem sigraði á Evrópumótinu í blandaðri liðakeppni atvinnukylfinga á Meistaramóti Evrópu í Skotlandi.

Kylfingur ársins

Haraldur Franklín Magnús

Kylfingur ársinsHaraldur Franklín tók fyrstur allra íslenskra karlkylfinga þátt á risamóti á atvinnumótaröð þegar að hann komst inn á Opna breska meistaramótið sem haldið var á Carnoustie vellinum í Skotlandi eftir að hafa endað í 2. sæti á úrtökumóti fyrir mótið. Hann lék á 72-78 og +8 samtals og komst ekki í gegnum niðurskurðinn (+3). Haraldur er á sínu þriðja ári sem atvinnukylfingur. Hann komst í gegnum 1. stig úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina, en féll naumlega úr leik á 2. stiginu. Hann lék á 17 mótum á Nordic atvinnumótaröðinni sem er í þriðja styrkleikaflokki í Evrópu og endaði í 55. sæti á stigalistanum. Hann komst í gegnum niðurskurðinn á 10 mótum og besti árangur hans var 7. sæti.

Handknattleikskona ársins

Þórey Rósa Stefánsdóttir

Handknattleikskona ársinsÞórey Rósa tók þátt í miklum uppgangi kvennaliðs Fram áður en hún fór í atvinnumennsku til hollenska liðsins E&O Emmen. Þá spilaði Þórey í stuttan tíma með Vfl Oldenburg áður en hún flutti sig til Team Tvis Holstebro í Danmörku sumarið 2011. Hún var Evrópumeistari vorið 2013 með Holstebro en flutti sig um sumarið til Noregs þar sem hún spilaði með Vipers Kristiansand næstu 4 ár í toppbaráttu í norsku deildinni. Árið 2017 flutti Þórey heim og gekk til liðs við Fram á nýjan leik og varð hún Íslands- og bikarmeistari með Fram nú í vor. Þórey hefur verið lykilmaður í A landsliði kvenna undanfarin ár. Hún hefur spilað 83 landsleiki og skorað í þeim 211 mörk. Auk þess lék Þórey á sínum tíma 31 unglingalandsleik og skoraði í þeim 72 mörk. Þá var Þórey fyrirliði kvennalandsliðsins sem tryggði sér sæti í umspilsleikjum fyrir HM næsta sumar.

Handknattleiksmaður ársins

Guðjón Valur Sigurðsson

Handknattleiksmaður ársinsGuðjón Valur er alinn upp í Gróttu og steig þar sín fyrstu skref með meistaraflokki. Guðjón Valur spilaði með KA á Akureyri um tíma og varð Íslandsmeistari með þeim árið 2001, en hann fór í atvinnumennsku til Þýskalands það sumar. Í Þýskalandi spilaði hann með Essen og varð Evrópumeistari með þeim árið 2005, seinna það ár gekk hann til liðs við Gummersbach. Árið 2008 gekk hann til liðs við Rhein-Neckar Löwen. Það var síðan tímabilið 2011-2012 sem hann söðlaði um og fór til Danmerkur og spilaði þar með AG Köbenhavn. Hann fór aftur til Þýskalands 2012 og gekk þá til liðs við Kiel. Hann varð Þýskalandsmeistari og þýskur bikarmeistari með Kiel 2013 og Þýskalandsmeistari 2014. Guðjón Valur gekk til liðs við Barcelona sumarið 2014 þar sem hann vann alla titla sem í boði voru vorið 2015. Eftir annan Spánarmeistaratitilinn í röð vorið 2016 hélt Guðjón Valur á ný til Þýskalands og gekk í annað sinn í raðir Rhein-Neckar Löwen, þar sem hann varð Þýskalandsmeistari með liði sínu vorið 2017 ásamt því að vera fjórði markahæsti leikmaður þýsku Bundesligunnar. Guðjón Valur hefur leikið 340 A-landsleiki og skorað í þeim 1783 mörk. Sem atvinnumaður hefur Guðjón Valur verið frábær fyrirmynd ungra handboltaiðkenda bæði hér á landi og erlendis í bráðum tvo áratugi.

Kvenkeilari ársins

Ástrós Pétursdóttir

Kvenkeilari ársinsÁstrós er Íslandsmeistari kvenna 2018. Leiddi hún mótið frá byrjun og var í efsta sæti frá forkeppni allt til loka. Fór hún fyrir sínu liði ÍR Buff í úrslitum bikarkeppni liða en þær urðu í 2. sæti í mótinu í ár. Ástrós varð efst kvenna í úrtökumóti fyrir Heimsbikarmót einstaklinga Qubica AMF World Cup og vann sér þar með inn þátttökurétt á Heimsbikarmótinu sem fór fram í nóvember í Las Vegas þar sem hún stóð sig með ágætum. Náði hún bestum árangri íslensku kvennanna sem kepptu á Evrópumóti kvenna í júní í Brussel. Ástrós lauk síðan árinu með einum besta árangri sem íslenskur kvenkeilari hefur náð þegar hún komst inn í 16 kvenna úrslit á Evrópumóti landsmeistara.

Karlkeilari ársins

Arnar Davíð Jónsson

Karlkeilari ársinsArnar Davíð komst í undanúrslit á RIG- mótinu í byrjun febrúar. Hann varð í 2. sæti á Íslandsmótinu í apríl. Sigraði hann síðan úrtökumótið fyrir Heimsbikarmót einstaklinga Qubica AMF World Cup og náði í lokakeppninni erlendis 9. sæti og var aðeins hársbreidd frá því að komast í gegnum niðurskurð efstu 8 manna. Arnar Davíð varð síðan í 3. sæti á Opna Reykjavíkurmótinu í haust. Hann náði þeim merka áfanga í byrjun september að vera fyrstur íslenskra keilara til að vinna mót á evrópsku mótaröðinni í keilu þegar að hann vann Alþjóðlega Óðinsvé mótið. Náði hann því næst 3. sætinu á Opna norska meistaramótinu sem einnig er hluti af Evrópsku mótaröðinni.

Akstursíþróttakona ársins

Halldóra Jóhannsdóttir

Akstursíþróttakona ársinsHalldóra keppti fyrst í ralli með Óskari bróður sínum árið 2017. Hún hefur staðið sig vel í aðstoðarökumannssætinu þrátt fyrir stuttan tíma þar. Árið 2018 gekk þeim systkinum vel. Þau enduðu í sjötta sæti í fyrsta rallinu, en unnu í næstu tveimur röllum. Í fjórða ralli lentu þau í öðru sæti og tryggði það Íslandsmeistaratitilinn hjá Halldóru. Í síðasta ralli ársins þurfti Óskar bróðir hennar á sigri að halda til að ná sínum titli og var allt lagt í sölurnar til að ná fyrsta sætinu sem hafðist með góðum mun. Má búast við að Halldóra haldi áfram í toppbaráttu í sínum flokki á komandi árum.

Akstursíþróttamaður ársins

Þór Þormar Pálsson

Akstursíþróttamaður ársinsÞór sýndi yfirburða tilþrif í öllum torfærukeppnum sumarsins. Hann var alltaf í toppbaráttunni og nældi sér í mörg tilþrifaverðlaun eftir sumarið. Hann endaði tímabilið sem Íslandsmeistari og varð í 2. sæti á NEZ mótinu. Þór á einnig heiður skilinn fyrir áberandi þáttöku styrktaraðila sinna á keppnum og hefur á ýmsum stöðum tekist að vekja mikla athygli á torfæru og akstursíþróttum. Þór keppti einnig í rallýkross, drulluspyrnu, sandspyrnu og „burnout“ á árinu með góðri frammistöðu í öllum þeim greinum.

Dansarar ársins

Nicoló Barbizi og Sara Rós Jakobsdóttir

Dansarar ársinsNicolò og Sara Rós komust alla leið í úrslit á Evrópumeistaramóti í 10 dönsum í Brno í mars og enduðu í 6. sæti. Þau eru fyrsta íslenska dansparið til að komast í úrslit á EM í fullorðins flokki á efsta getustigi og er það því glæsilegur árangur. Einnig unnu þau Ballroom danskeppnina Snowball Classic í Vancover í Kanada og lentu svo í 4. sæti í latin. Þau lentu í 2. sæti í ballroom og 7. sæti í latin á International Open keppni í Tókýó, 4. sæti á WDSF Open 10 dance á Rembrandt Cup í Hollandi, 7. sæti í Standard og 9. sæti í Latin í International Open í Þýskalandi. Þá komust þau í undanúrslit á Heimsbikarmótinu í Standard og lentu í 10. sæti og urðu svo í 15. sæti á Heimsbikarmótinu í Latin í Kína. Þau eru í landsliði Íslands ásamt því að vera margfaldir Íslandsmeistarar.

Körfuknattleikskona ársins

Hildur Björg Kjartansdóttir

Körfuknattleikskona ársinsHildur Björg er Körfuknattleikskona ársins í annað skipti og annað árið í röð. Hildur Björg hóf atvinnuferil sinn árið 2017 með CB Leganés á Spáni þar sem hún stóð sig vel og bætti sinn leik. Í haust skipti Hildur Björg yfir til Celta Vigo og hefur farið vel af stað með liði sínu og liðinu gengið vel. Með landsliðinu lék Hildur Björg í undankeppni EM kvenna 2019 þar sem íslenska liðið lék sex leiki frá nóvember 2017. Hildur var ein af lykilleikmönnum landsliðsins þar sem hún var með 14.2 stig og 7.5 fráköst að meðaltali í leikjunum. Framtíð Hildar sem atvinnumaður í körfuknattleik er án efa björt á næstu árum.

Körfuknattleiksmaður ársins

Martin Hermannsson

Körfuknattleiksmaður ársinsMartin er orðinn einn af betri leikmönnum íslenska landsliðsins á sínu 24. aldursári og hefur sýnt framfarir í leik sínum undanfarin ár. Martin er einn af framtíðarleikmönnum íslenska landsliðsins. Martin lék á síðasta tímabili með Châlons-Reims í efstu deild í Frakklandi, þar sem hann stóð sig frábærlega og það vel að stórlið Alba Berlínar samdi við hann fyrir núverandi tímabil. Þar hefur Martin verið lykilleikmaður leik eftir leik og byrjað vel. Í undankeppni HM lék Martin einnig vel og alla sex leiki liðsins. Þar var hann stigahæstur í liðinu með 21.5 stig að meðaltali, stoðsendingahæstur með 3.7 stoðsendingar í leik og einnig framlagshæstur með 20.0 stig í leik. Við tók undankeppni EuroBasket 2021 og þar hélt Martin uppteknum hætti í fyrri leik liðsins af tveim og verður lykilmaður áfram með íslenska landsliðinu.

Mótorhjóla- og snjósleðakona ársins

Gyða Dögg Heiðarsdóttir

Mótorhjóla- og snjósleðakona ársinsGyða Dögg byrjaði að keppa í Moto Cross 12 ára gömul og hefur æft í sjö ár. Gyða Dögg var valin Mótorhjóla- og snjósleðaíþróttakona ársins 2015, 2016 og 2018. Hún náði mjög góðum árangri á liðnu keppnistímabili, en hún var Íslandsmeistari í kvennaflokki í Moto Cross og Enduro þolakstri.

Mótorhjóla- og snjósleðamaður ársins

Grímur Helguson

Mótorhjóla- og snjósleðamaður ársinsGrímur byrjaði fyrir 4 árum síðan að stunda spyrnugreinar á mótorhjólum og hefur á þeim tíma tekið miklum framförum í íþróttinni. Fyrir árið í ár var hann ákveðinn að ná öllum þeim titlum sem hann gæti í kvartmílu og sandspyrnu. Hann keppti í tveimur flokkum í kvartmílu en aðeins náðist næg þátttaka í öðrum þeirra. Í sandi keppti hann bæði á mótorhjólum og vélsleðum. Grímur náði tveimur Íslandsmeistaratitlum, einum í B flokki mótorhjóla í kvartmílu og hinum í 2 cyl flokki mótorhjóla í sandspyrnu.

Skotíþróttakona ársins

Jórunn Harðardóttir

Skotíþróttakona ársinsJórunn varð Íslandsmeistari í loftriffli, þrístöðuriffli, 50 metra riffli og loftskammbyssu. Hún varð í 54. sæti á Evrópumeistaramótinu í Ungverjalandi, 78. sæti á Heimsbikarmótinu í Þýskalandi og í 97. sæti á Heimsmeistaramótinu í Suður-Kóreu. Jórunn er sem stendur í 127. sæti á heimslistanum og í 93. sæti á Evrópulistanum.

Skotíþróttamaður ársins

Ásgeir Sigurgeirsson

Skotíþróttamaður ársinsÁsgeir vann öll mót sem hann tók þátt í hérlendis en keppti auk þess víða erlendis. Hann er ríkjandi Íslandsmeistari í báðum sínum greinum, frjálsri skammbyssu og loftskammbyssu. Hann komst í úrslit á HN CUP í München og hafnaði þar í 6. sæti í loftskammbyssu. Hann komst tvívegis í úrslit á Belgrad Open og lenti þar í 5. og 6. sæti. Á Evrópu-meistaramótinu í Ungverjalandi lenti hann í 30. sæti af 80 keppendum, í 22. sæti á heimsbikarmótinu í Bandaríkjunum og á Heimsmeistaramótinu í Suður-Kóreu varð hann í 25. sæti af 115 keppendum. Ásgeir keppir með liði sínu SGi Ludwigsburg í þýsku Bundesligunni nokkrar helgar yfir vetrartímann. Hann er einn fárra erlendra keppenda í deildinni en einungis bestu skotmennirnir komast að hjá þýsku liðunum. Lið hans er í efsta sæti suðurdeildarinnar og hefur tryggt sér sæti í úrslitum keppninnar. Ásgeir er sem stendur í 58. sæti á heimslistanum og í 36. sæti á Evrópulistanum.

Glímukona ársins

Kristín Embla Guðjónsdóttir

Glímukona ársinsKristín Embla er 18 ára gömul og átti góðu gengi að fagna á glímuvellinum árið 2018. Krístín stóð sig vel á öllum glímumótum sem hún tók þátt í á árinu en helsta afrek hennar var þegar hún sigraði Íslandsglímuna og hlaut þar með Freyjumenið í fyrsta sinn. Kristín keppti einnig á alþjóðlegum mótum í keltneskum fangbrögðum þar sem hún stóð sig vel og var í verðlaunasæti í gouren og backhold á Evrópumóti unglinga í apríl. Kristín er fyrirmyndar íþróttakona jafnt innan vallar sem utan. Árangur Kristínar á árinu:Bikarglíma: 1. sæti í unglingaflokki +70 og 2. sæti í opnum flokki3. umferð: 2. sæti í + 70 kg og 2. sæti í opnum flokkiÚrslit í meistararmótaröð: 2. sæti unglingar +70 og 2. sæti opinn flokkur1. umferð: 3. sæti +65 og 2. sæti í opnum flokki2. umferð: 2. sæti í +65 og 1. sæti í opnum flokki1. sæti í fjórðungsglímu Austurlands

Glímumaður ársins

Ásmundur Hálfdán Ásmundsson

Glímumaður ársinsÁsmundur Hálfdán er 24 ára gamall og hefur stundað glímu í um 16 ár. Ásmundur var mjög sigursæll á árinu en helsta afrek hans var þegar hann sigraði Íslandsglímuna og hlaut þar með Grettisbeltið í þriðja sinn. Ásmundur sigraði öll glímumót sem hann tók þátt í á árinu. Ásmundur hefur verið einn fremsti glímumaður Íslands undanfarin ár. Hann er góð fyrirmynd jafnt innan vallar sem utan. Árangur Ásmundar á árinu:Bikarglíma: 1. sæti í +90 og opnum flokki3. umferð: 1. sæti í +90 og opnum flokkiÚrslit í meistararmótaröð: 1. sæti í +90 og opnum flokki1. umferð í meistaramótaröð: 1. sæti í +90 og opnum flokki2. umferð í meistaramótaröð: 1. sæti í +90 og opnum flokki

Júdókona ársins

Ingunn Rut Sigurðardóttir

Júdókona ársinsIngunn keppir í -70 kg flokki og er þetta í fyrsta sinn sem hún er valin Júdókona ársins. Hennar helsti árangur á árinu er þriðja sæti á Reykjavík Judo Open sem er opið alþjóðlegt mót. Hún varð Íslandsmeistari í þriðja sinn og var í sveitinni sem varð í 3. sæti á Norðurlandamóti í Danmörku í liðakeppni. Hún vann gullverðlaun á Vormóti JSÍ, varð önnur á Haustmóti JSÍ og er Reykjavíkurmeistari 2018.

Júdómaður ársins

Sveinbjörn Jun Iura

Júdómaður ársinsSveinbjörn keppir í -81 kg flokki og er þetta í annað sinn sem hann er valinn Júdómaður ársins. Hann vann sinn sjöunda Íslandsmeistaratitil er hann vann -81 kg flokkinn í ár. Hann komst í þriðju umferð á Heims-meistaramóti í Bakú á árinu og í 32 manna úrslit af 65 keppendum. Á Grand Slam Osaka komst hann einnig í þriðju umferð og í sextán manna úrslit af 40 keppendum. Þetta eru tvö sterkustu mót ársins í heiminum hverju sinni og þar er keppt með útsláttar fyrirkomulagi. Í báðum tilfellum var Sveinbjörn sleginn út af sigurvegara mótsins. Hann vann bronsverðlaun í -81 kg flokki á Norðurlandamóti í Danmörku og brons í liðakeppninni á sama móti.

Karatekona ársins

Iveta C. Ivanova

Karatekona ársinsIveta keppir í kumite. Hún hefur verið sigursæl karatekona síðustu ár í sínum aldursflokki og náð frábærum árangri á árinu. Hún varði Smáþjóðameistaratitil sinn frá fyrra ári, auk þess að vera Íslandsmeistari í -55kg flokki kvenna. Hún hefur verið í verðlauna-sætum erlendis sem og innanlands síðustu ár. Hún er verðugur fulltrúi karateíþróttarinnar. Helstu afrek Ivetu á árinu 2018 voru;Smáþjóðamót í karate -53kg junior female, 1. sætiÍslandsmeistari fullorðinna -55 kg female, 1. sætiÍslandsmeistari unglinga -53 kg junior female, 1. sætiBerlín open, -53 kg junior female, 1. sætiBerlín open, -55 kg U21 female, 3. sætiAmsterdam open, -53 kg junior female, 1. sætiSwedish open -53 kg junior female, 1. sætiRandori Þýskaland -53 kg junior female, 2. sætiCentral England open -53 kg junior female, 1. sætiCentral England open mixed team senior, 2. sætiÁlaborg open -53 kg junior female, 3. sæti

Karatemaður ársins

Ólafur Engilbert Árnason

Karatemaður ársinsÓlafur keppir í kumite. Hann hefur verið sigursæll á mótum bæði erlendis og hérlendis undanfarin ár og hefur náð góðum árangri á árinu. Hann er Íslandsmeistari í -75 kg flokki karla. Hann stundar nú æfingar í Danmörku undir handleiðslu landsliðsþjálfara Dana í kumite. Hann er verðugur fulltrúi karateíþróttarinnar. Helstu afrek Ólafs á árinu 2018 voru;Íslandsmeistari fullorðinna -75 kg senior male, 1. sætiÍslandsmeistari fullorðinna, liðakeppni, 1. sætiIshöj Karate Cup -75 kg senior male, 3. sætiIshöj Karate Cup -75 kg U21 male, 3. sætiIshöj Karate Cup open male, 3. sætiIshöj Karate Cup liðakeppni, 3. sætiSwedish open -75 kg male, 2. sætiSwedish open open male, 1. sætiDanska meistaramótið -75 kg U21 male, 2. sætiCentral England open -75 kg senior male, 3. sætiCentral England Open mixed team senior, 2. sætiSmáþjóðamót í karate -75 kg senior male, 3. sætiSmáþjóðamót í karate team male, 3. sætiÁlaborg open -75 kg senior male, 2. sæti

Taekwondokona ársins

María Guðrún Sveinbjörnsdóttir

Taekwondokona ársinsMaría Guðrún er Íslandsmeistari í poomsae auk þess að vera margfaldur bikarmeistari í bæði poomsae og bardaga. Hún er máttarstólpi í landsliðsstarfinu og sér um poomsae þjálfun hjá fjölmörgum félögum og hefur þar stóreflt þjálfunina með fagmennsku sinni og einstöku viðmóti. María Guðrún hefur keppt á mörgum mótum í ár fyrir Íslands hönd og bar þar hæst keppni á heimsmeistaramótinu í Taiwan í nóvember þar sem hún lenti í 9.- 16. sæti í gríðarlega erfiðum flokki. María Guðrún keppti á Opna enska mótinu sl. vor og vann þar til gullverðlauna bæði í bardaga og í poomsae. Hún vann til silfur- og bronsverðlauna á NM í Finnlandi síðasta vetur.

Taekwondomaður ársins

Ágúst Kristinn Eðvarðsson

Taekwondomaður ársinsÁgúst Kristinn er einn allra besti taekwondomaður landsins. Ágúst er eini Íslendingurinn til að ná verðlaunum á Evrópumóti í ólympísku taekwondo. Ágúst er fastamaður í íslenska landsliðinu og hefur náð eftirtektarverðum árangri á mótum á erlendri grundu þrátt fyrir ungan aldur. Hann keppti m.a. á úrtökumóti fyrir Ólympíuleika ungmenna í vor og stóð sig þar með mikilli prýði. Ágúst keppti á mörgum erlendum mótum á árinu. Meðal þeirra var Opna hollenska mótið, sem er stærsta stigamót sem er haldið í Evrópu á hverju ári. Hann féll úr keppni í fjórðungsúrslitum með minnsta mögulega mun á síðustu sekúndum bardagans, á móti sterkum sænskum andstæðingi. Ágúst hefur fengið gull- og silfurverðlaun á sterkum erlendum stigamótum, unnið á þremur Norðurlandamótum og er margfaldur Íslandsmeistari.

Lyftingakona ársins

Þuríður Erla Helgadóttir

Lyftingakona ársinsÞuríður Erla er valin Lyftingakona ársins fjórða árið í röð. Þuríður Erla átti viðburðaríkt keppnisár en bestum árangri náði hún á RIG í janúar sem hún sigraði með því að lyfta 185 kg samanlagt. Hún varð einnig stigahæst á Smáþjóðleikunum í ólympískum lyftingum með 247 Sinclair stig. Hún endaði í þriðja sæti í sterkum -58 kg flokki á Norðurlandamótinu aðeins 2 kg frá gullverðlaunum. Hún lauk síðan árinu með keppni á heimsmeistaramótinu í Túrkmenistan þar sem keppt var í nýjum þyngdarflokkum. Þar endaði Þuríður í 26. sæti í -59 kg flokki kvenna þar sem hún snaraði 79 kg og jafnhenti 105 kg og eru það Íslandsmet í þessum nýja flokki. Þuríður var ein af 8 íslenskum íþróttamönnum sem hlaut styrk frá Ólympíusamhjálpinni í undirbúningi fyrir Ólympíuleikana í Tókýó 2020.

Lyftingamaður ársins

Einar Ingi Jónsson

Lyftingamaður ársinsEinar er kjörinn Lyftingamaður ársins í fyrsta sinn. Einar keppti á sex mótum á árinu, allt alþjóðlegum. Hann sigraði á RIG 2018 þegar hann lyfti 264 kg samanlagt. Bestum árangri náði hann á Evrópumeistaramótinu í Rúmeníu þar sem hann snaraði nýju Íslandsmeti 123 kg og jafnhenti 150 kg í -77 kg flokki. Samanlagður árangur, 273 kg, var einnig nýtt Íslandsmet. Einar var einnig stigahæstur keppenda á Smáþjóðleikunum þar sem hann var 0.2 stigum frá næsta keppanda. Einar var þriðji á stigum á alþjóðlegu móti í Ísrael og í 2. sæti í -77 kg flokki á Norðurlandameistaramótinu. Einar lauk árinu með keppni á HM í Túrkmenistan. Hann keppti meiddur á úlnlið en náði þó að ljúka keppni með 251 kg samanlagt, sem setti hann í 40. sæti í -81kg flokki, en mótið var það fyrsta í röðinni að undankeppni fyrir Ólympíuleikana í Tókýó 2020.

Siglingakona ársins

Hulda Lilja Hannesdóttir

Siglingakona ársinsHulda hefur borið höfuð og herðar yfir aðra siglingamenn landsins um nokkurt skeið en þetta er sjötta árið í röð sem hún er valin siglingakona ársins. Hulda hefur einbeitt sér að keppni erlendis á árinu og keppti m.a. á heimsmeistaramótinu í Árósum. Það telst mikill sigur að vinna þátttökurétt á mótinu enda keppir hún á Laser Radial sem er einn stærsti flokkurinn á heimsvísu og ríkir þar gríðarleg samkeppni.

Siglingamaður ársins

Dagur Tómas Ásgeirsson

Siglingamaður ársinsDagur átti mjög gott ár og var aðeins einum silfurverðlaunum frá því að vinna öll mót sumarsins. Á Íslandsmótinu keppti hann á Laser Radial, sem er sterkasti flokkurinn á Íslandi um þessar mundir og vann hann allar umferðir mótsins.

Kayakkona ársins

Unnur Eir Arnardóttir

Kayakkona ársinsUnnur er valin Kayakkona ársins annað árið í röð. Hún hefur á þeim fáu árum sem liðin eru síðan hún hóf að stunda róður sýnt að hún er mikil keppnismanneskja. Hún varð Íslandsmeistari í kayakróðri með 280 stig af 300 mögulegum, en keppnir sumarsins voru erfiðar í ár enda lék veðrið kayakfólk grátt.

Kayakmaður ársins

Ólafur B. Einarsson

Kayakmaður ársinsÓlafur hefur verið valinn Kayakmaður ársins fjórum sinnum áður. Hann hefur um langt árabil verið með öflugustu kayakræðurum landsins. Ólafur tryggði sér titilinn kayakmaður ársins með öruggum hætti enda vann hann öll mót ársins.

Kraftlyftingarkona ársins

Hulda B Waage

Kraftlyftingarkona ársinsHulda hefur sett mörg Íslandsmet á árinu. Helstu afrek á árinu eru: Íslandsmeistari í kraftlyftingum, Íslandsmeistari í bekkpressu, bikarmeistari í kraftlyftingum, bikarmeistari í bekkpressu, 8. sæti í -84 kg flokki á EM í kraftlyftingum, 4. sæti í -84 kg flokki á Western European Championship í kraftlyftingum.

Kraftlyftingamaður ársins

Júlían J. K. Jóhannsson

Kraftlyftingamaður ársinsJúlían hefur sett heimsmet, Evrópumet og mörg Íslandsmet á árinu. Júlían er í 4. sæti á heimslista í sínum flokki. Helstu afrek á árinu eru: Heimsmet í réttstöðulyftu í +120 kg flokki með 405 kg, Evrópumet í klassískri réttstöðulyftu í +120 kg flokki með 372,5 kg, gullverðlaun í réttstöðulyftu í +120 kg flokki á HM í kraftlyftingum, 4. sæti samanlagt í +120 kg flokki á HM í kraftlyftingum, gullverðlaun í réttstöðulyftu í +120 kg flokki á EM í kraftlyftingum, silfurverðlaun í réttstöðulyftu í +120 kg flokki á HM í klassískum kraftlyftingum, Íslandsmeistari í klassískum kraftlyftingum og stigahæstur í karlaflokki á RIG 2018.

Frjálsíþróttakona ársins

Ásdís Hjálmsdóttir

Frjálsíþróttakona ársinsÁsdís, spjótkastari úr Ármanni, var í 33. sæti á heimslista IAAF með 60,34m kasti, en hún hefur verið ofarlega á heimslistanum í spjótkasti í mörg ár og hefur keppt á fjölmörgum stórmótum. Ásdís var einungis 65 cm frá úrslitasæti á EM í Berlín sl. sumar.

Frjálsíþróttamaður ársins

Guðni Valur Guðnason

Frjálsíþróttamaður ársinsGuðni Valur, kringlukastari úr ÍR, keppti á EM fullorðinna í sumar og var einungis 83cm frá því að komast í úrslit. Guðni átti stigahæsta afrek ársins samkvæmt stigatöflu IAAF. Hann var í 22. sæti á heimslista IAAF með sinn persónulega besta árangur 65,53m sem er næstlengsta kast Íslendings allra tíma.

Íþróttamaður fatlaðra

Róbert Ísak Jónsson

Íþróttamaður fatlaðraRóbert er nú í fyrsta sinn valinn Íþróttamaður ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra. Hann hefur verið á mikilli siglingu síðustu ár og m.a. unnið Nýársmót fatlaðra barna og unglinga þrjú ár í röð og varð heimsmeistari á árinu 2017. Róbert vann til tvennra silfurverðlauna á Evrópumeistaramótinu sem fram fór í Dublin sl. sumar. Á árinu setti Róbert 18 Íslandsmet, varð ferfaldur Norðurlandameistari og varð stigahæsti ungi sundmaðurinn undir 18 ára aldri á heimsmótaröð IPC í sundi. Róbert var nýverið valinn Íþróttamaður ársins hjá Íþróttafélaginu Firði og varð Íslandsmeistari í sjósundi ásamt því að verða bikarmeistari með Firði í bikarkeppni ÍF síðasta sumar. Alls vann Róbert til 25 verðlauna á árinu á erlendri grundu og varð þrefaldur aldursflokkameistari á AMÍ í sumar.

Íþróttakona fatlaðra

Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir

Íþróttakona fatlaðraBergrún er nú í fyrsta sinn valin Íþróttakona ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra. Hún hefur tekið stórstígum framförum síðustu ár. Hún vann til þrennra verðlauna á Evrópumeistaramótinu í Berlín síðastliðið sumar þegar hún náði 3. sæti í 100 og 200 metra hlaupi og 2. sæti í langstökki. Bergrún vann alls til átta verðlauna á erlendum mótum þetta árið og setti sex Íslandsmet, fjögur utanhúss og tvö innanhúss. Með útnefningunni er Bergrún önnur frjálsíþróttakona sögunnar sem verður íþróttakona ársins hjá ÍF.

Knattspyrnukona ársins

Sara Björk Gunnarsdóttir

Knattspyrnukona ársinsSara Björk er einn af mikilvægustu leikmönnum í liði Wolfsburg sem vann bæði deild og bikar á síðastliðnu tímabili, annað árið í röð. Á yfirstandandi tímabili hefur liðið ekki enn tapað leik, unnið 11 og gert eitt jafntefli og situr í efsta sæti með fimm stiga forskot. Liðið komst alla leið í úrslit Meistaradeildarinnar en tapaði þar fyrir Lyon. Sara Björk hefur leikið átta leiki á yfirstandandi leiktímabili og skorað í þeim eitt mark. Hún er fyrirliði íslenska landsliðsins og á árinu lék hún átta leiki með liðinu.

Knattspyrnumaður ársins

Gylfi Þór Sigurðsson

Knattspyrnumaður ársinsGylfi Þór átti að venju mjög gott tímabil, en hann hefur verið ein af driffjöðrum sóknarleiks Everton. Liðið endaði í 8. sæti á síðastliðnu tímabili þar sem Gylfi lék 27 leiki, skoraði fjögur mörk og átti þrjár stoðsendingar. Í enska bikarnum lék hann einn leik og skoraði eitt mark, ásamt því að leika fjóra leiki í Evrópudeildinni og eiga þar tvær stoðsendingar. Fyrir Everton hefur hann leikið 17 leiki á yfirstandandi leiktímabili, skorað sjö mörk og átt tvær stoðsendingar. Gylfi var lykilmaður í landsliði Íslands þegar það tók þátt í lokakeppni HM í fyrsta skipti í sögunni, en þar lék hann alla leiki liðsins og skoraði mark Íslands í leiknum gegn Króatíu. Í Þjóðadeild UEFA lék hann þrjá af fjórum leikjum liðsins.

Skylmingakona ársins

Anna Margrét Ólafsdóttir

Skylmingakona ársinsAnna Margrét varð Íslandsmeistari kvenna í skylmingum með höggsverði. Hún hafnaði í þriðja sæti á Norðurlandameistaramótinu í flokki U20 (20 ára og yngri) á árinu.

Skylmingamaður ársins

Andri Nikolaysson Mateev

Skylmingamaður ársinsAndri vann öll mót sem haldin voru hér á landi á árinu. Hann varð Íslandsmeistari í flokki U20 (20 ára og yngri) og í opnum flokki í þriðja skiptið. Hann varð í 8. sæti á Viking Cup 2018, sterku heimsbikarmóti sem haldið var á Íslandi. Andri varð einnig Norðurlandameistari í flokki U20 (20 ára og yngri) og var hann lykilmaður í karlalandsliði Íslands sem varð Norðurlandameistari.

Bogfimikona ársins

Eowyn Marie Mamalias

Bogfimikona ársinsEowyn er 14 ára gömul og búin að stunda bogfimi í um 3 ár. Hún er á þeim tíma búin að eigna sér meirihlutann af Íslandsmetaskránni í öllum aldursflokkum. Hún sló 15 Íslandsmet í trissuboga á tímabilinu í flokki U15, U18 og U21. Hún er einnig ein af iðnustu keppendunum. Eowyn keppti á Norðurlandameistaramóti ungmenna á árinu þar sem hún endaði í 3. sæti og var talin með sigurstranglegustu á mótinu. Eowyn náði frábærum árangri á þessu ári og það verður spennandi að fylgjast með hvað mun gerast í framtíðinni hjá henni.

Bogfimimaður ársins

Nói Barkarson

Bogfimimaður ársinsNói er 15 ára gamall og búinn að stunda bogfimi í rúmt ár. Hann er á þeim tíma búinn að eigna sér meirihlutann af Íslandsmetaskránni í öllum aldursflokkum. Hann sló 16 Íslandsmet í trissuboga á tímabilinu í flokki U15, U18 og U21 flokki og er Íslandsmeistari í U18 innandyra og utandyra ásamt því að vinna Íslandsbikarmótið með forgjöf. Hann er einnig einn iðnasti keppandinn. Nói keppti á Norðurlanda-meistaramóti ungmenna á árinu þar sem hann endaði í 4. sæti. Nói náði frábærum árangri á þessu ári og framtíðin hjá honum er björt.

Fimleikakona ársins

Andrea Sif Pétursdóttir

Fimleikakona ársinsAndrea Sif er fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í hópfimleikum sem vann til silfurverðlauna á Evrópumótinu í október. Hún er fyrirliði Stjörnunnar og gegndi lykilhlutverki í sigri Stjörnunnar, bæði á Íslands- og bikarmóti í hópfimleikum. Andrea er á meðal sterkustu hópfimleikakvenna heims og stekkur til að mynda í öllum sex umferðum á dýnu og trampólíni. Stökkin sem hún framkvæmir eru meðal þeirra erfiðustu í heiminum og er framkvæmd þeirra næstum óaðfinnanleg. Hún var, í kjölfar Evrópumótsins, valin í Stjörnulið mótsins, en í það eru valdar sex fimleikakonur sem framkvæma erfiðustu stökk mótsins. Andrea er íþróttakona í hæsta gæðaflokki, hún lifir fyrir íþrótt sína og er auðmýkt hennar gangvart ástundum og árangri öðru fimleikafólki ríkur innblástur.

Fimleikamaður ársins

Valgarð Reinhardsson

Fimleikamaður ársinsValgarð hefur átt góðu gengi að fagna sl. ár. Hann náði þeim sögulega árangri að vera fyrsti íslenski fimleikamaðurinn til að komst í úrslit á stökki þegar hann var fimmti í undanúrslitunum á Evrópumótinu í ágúst en alls kepptu 151 keppandi á mótinu. Hann er ríkjandi Íslandsmeistari í fjölþraut, bikarmeistari með félagsliðinu sínu Gerplu og vann til silfurverðlauna á tvíslá á Norðurlandamótinu í sumar. Valgarð hefur mikinn metnað fyrir íþrótt sinni og hefur bætt sig mikið á árinu ásamt því að vera jafnt og þétt að auka erfiðleikann í sínum æfingum. Valgarð er glæsileg fyrirmynd yngri iðkenda.

Sundkona ársins

Snæfríður Sól Jórunnardóttir

Sundkona ársinsSnæfríður Sól hefur búið í Danmörku síðastliðin 10 ár en byrjaði að æfa sund í Hveragerði áður en hún hóf skólagöngu. Hún fór sem skiptinemi til Bandaríkjanna þar sem hún náði miklum framförum. Snæfríður keppti á Ólympíuleikum ungmenna í Buenos Aires í október. Þar náði hún góðum árangri og endaði m.a. í 11. sæti í 200m skriðsundi. Hún náði einnig lágmarki á Norðurlanda-meistaramótið og heimsmeistaramótið í 25m laug en ákvað að einbeita sér að dönsku liðameistarakeppninni í staðinn. Það skilaði sér í Íslandsmeti í 200m skriðsundi, en fyrr á árinu hafði hún tvíbætt Íslandsmetið í greininni í löngu brautinni á danska meistaramótinu í 50m laug. Snæfríður Sól er fagleg þrátt fyrir ungan aldur. Hún hefur náð mjög góðum árangri á árinu og á góða möguleika á þátttöku á heimsmeistaramótinu í Suður-Kóreu í júlí nk. og Ólympíuleikunum í Tókýó 2020.

Sundmaður ársins

Anton Sveinn Mckee

Sundmaður ársinsAnton Sveinn býr í Boston þar sem hann vinnur og æfir allajafna. Anton Sveinn stóð sig með miklum ágætum á árinu 2018. Hann synti á Evrópumeistaramótinu í 50m laug í Glasgow í ágúst þar sem hann náði í undanúrslit í 100m bringu og bætti eigið Íslandsmet í greininni. Þá synti hann á heimsmeistaramótinu í 25m laug í Hangzhou í desember og stóð sig vel. Hann tvíbætti Íslandsmetið í 50m bringusundi og bætti eigið Íslandsmet í 200m bringusundi þar sem hann endaði í 10. sæti. Þá náði hann í undanúrslit í 100m bringsundi. Í þeirri grein bætti hann einnig eigið Íslandsmet sem hann hafði sett á ÍM25 í nóvember. Anton er í 21. sæti á heimslistanum í 200m bringusundi í stuttu brautinni. Anton er frábær fyrirmynd fyrir annað sundfólk.

Hjólreiðakona ársins

Ágústa Edda Björnsdóttir

Hjólreiðakona ársinsÁgústa Edda varð Íslandsmeistari í götuhjólreiðum árið 2018. Hún vann bæði bikarmót sumarsins í götuhjólreiðum og er bikarmeistari í tímatöku. Hún er sigurvegari Prologue mótaraðarinnar í tímatöku og sigurvegari á Criterium mótaröðinni. Ágústa Edda hefur einnig náð miklum árangri í fjallahjólreiðum, m.a. var hún í 1. sæti í Fella-hringnum, sem er fjallahjólakeppni.

Hjólreiðamaður ársins

Ingvar Ómarsson

Hjólreiðamaður ársinsIngvar keppti samtals í 34 keppnum í ár. 19 keppnir fór fram innanlands. 15 keppnir fóru fram erlendis og af þeim voru 13 UCI löglegar keppnir en UCI er alþjóðasamband keppnishjólreiða. Ingvar tók í ár þátt í 3 heimsmeistaramótum, 1 Evrópumeistaramóti og þremur heimsbikarmótum. Hann náði því afreki á þessu ári að hafa unnið til fjögurra Íslandsmeistaratitla á sama árinu og er það í fyrsta skiptið sem einstaklingi tekst það. Ingvar varð Íslandsmeistari í Fjallahjólreiðum – XC, Maraþon Fjallahjólreiðum – XCM, Cyclo Cross – CX og í götuhjólreiðum – RR.

Íshokkíkona ársins

Silvía Rán Björgvinsdóttir

Íshokkíkona ársinsSilvía Rán er vel að titlinum komin enda frábær leikmaður í alla staði. Hún spilar með Skautafélagi Akureyrar í Íslandsmóti kvenna og U20 í karlaflokki. Hún hefur um árabil spilað með landsliði Íslands og tekið þátt í nokkrum heimsmeistaramótum og verið gríðarlega mikilvægur leikmaður fyrir landsliðið frá 16 ára aldri. Silvía Rán er fyrirmynd margra ungra leikmanna og er íshokkíhreyfingunni á Íslandi til mikils sóma.

Íshokkímaður ársins

Jóhann Már Leifsson

Íshokkímaður ársinsJóhann Már hefur um árabil leikið með meistaraflokki Skautafélags Akureyrar með frábærum árangri og margsinnis hampað Íslands- og deildar- og bikarmeistaratitli. Hlutverk hans með landsliðinu hefur vaxið jafnt og þétt og er hann nú lykilmaður í liðinu. Jóhann Már er þekktur fyrir baráttu sína og vinnusemi inn á ísnum ásamt því að vera góður liðsfélagi og ávallt tilbúinn til að taka þátt í landsliðsverkefnum. Hann er til fyrirmyndar í alla staði.

Skautakona ársins

Eva Dögg Sæmundsdóttir

Skautakona ársinsEva Dögg hlýtur nú í fyrsta sinn titilinn Skautakona ársins. Hún hefur sýnt einn mesta stöðugleika sem keppandi hefur sýnt hvað varðar þátttöku á mótum ÍSS og í þeim verkefnum sem hún hefur verið valin til af hálfu ÍSS á árinu. Eva Dögg tók þátt á Norðurlandamóti 2018, RIG 2018 og nú síðast á Autumn Classic International 2018. Helstu afrek Evu Daggar eru þau að vera meðal fyrstu íslenskra skautara til þess að taka þátt fyrir Íslands hönd á Challenger mótaröðinni, sem er næst í styrkleikaröð fyrir neðan Grand Prix mótin, og reyna skautarar þar að ná góðum úrslitum til að koma til greina á þá mótaröð að ári. Mótin eru samtals tíu og eru haldin um allan heim. Eva Dögg er kappsfull íþróttakona sem leggur sig fram í íþrótt sinni. Hún er góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur bæði hvað varðar framkomu og viðhorf til íþróttarinnar.

Skíðakona ársins

Freydís Halla Einarsdóttir

Skíðakona ársinsFreydís Halla hefur undanfarin ár verið með fremstu skíðakonum Íslands og verið að klífa upp heimslistann. Hún stundar nám í háskóla í Bandaríkjunum og keppir þar í háskólamótaröðinni ásamt því að keppa í Norður-Ameríkubikarnum sem er hluti af næststerkustu mótaröðinni á eftir heimsbikarkeppninni. Hún var með stigahæstu keppendum háskólamótaraðarinnar á Austurströnd Bandaríkjanna og var ein 34 kvenna sem fengu keppnisrétt á lokamóti allra háskóla í Bandaríkjunum þriðja árið í röð. Freydís tók þátt á Vetrarólympíuleikunum í S-Kóreu á árinu og var eina íslenska konan sem tókst að vinna sér inn þátttökurétt. Í stórsvigi náði hún ekki að ljúka keppni en endaði í 41. sæti í svigi. Hún vann einnig tvo Íslandsmeistaratitla í svigi og samhliðasvigi á Skíðamóti Íslands.

Skíðamaður ársins

Snorri Einarsson

Skíðamaður ársinsSnorri ber höfuð og herðar yfir aðra skíðagöngumenn á Íslandi og er hann með langbestu FIS stigin af þeim öllum og sá eini sem má keppa í heimsbikarnum. Snorri hefur með bæði góðum árangri og hógværð sinni dregið íslenska skíðagöngu á miklu hærra plan en hún hefur verið undanfarin ár. Hann dregur þá yngri með sér og er mikil og góð fyrirmynd. Snorri tók þátt á Vetrarólympíuleikunum í S-Kóreu og keppti þar í þremur greinum. Í haust tók hann svo þátt í tveimur fyrstu helgunum í heimsbikarnum, sterkustu mótaröð í heimi.

Krullari ársins

Árni Grétar Árnason

Krullari ársinsÁrni er nú í fyrsta sinn valinn Krullari ársins. Hann hefur náð mjög góðum tökum á íþróttinni og er nú í fremstu röð krullufólks, tæknilega nákvæmur og útsjónarsamur. Árni hefur í gegnum tíðina verið máttarstólpi í liði Garpa, sem hafa unnið marga titla á undanförnum árum, m.a. Íslandsmeistaratitil árin 2015, 2017 og 2018. Einnig hefur Árni tekið þátt í Evrópumótum á vegum Alþjóðakrullusambandsins.

Knapi ársins

Árni Björn Pálsson

Knapi ársinsÁrni Björn er jafnvígur í öllum greinum hestamennskunnar, hvort sem það er gæðingakeppni, íþróttakeppni eða kappreiðar. Árni Björn var valinn Knapi ársins, auk þess að vera tilnefndur í flokkunum gæðingaknapi-, skeiðknapi- og íþróttaknapi ársins á uppskeruhátíð hestamanna. Árni Björn sigraði töltið á Landsmótinu í þriðja skiptið í röð sem er einstakt afrek. Enginn hefur unnið meistardeildina jafn oft ásamt því að vera með hross í efstu sætum í öllum greinum bæði í íþróttakeppni og gæðingakeppni. Árni Björn er fyrirmyndarknapi og íþróttamaður af lífi og sál, prúður innan vallar sem utan og frábær fyrirmynd ungra knapa.

Þríþrautarkona ársins

Guðlaug Edda Hannesdóttir

Þríþrautarkona ársinsGuðlaug Edda flutti til Danmerkur fyrir tveimur árum og æfir með danska landsliðinu í þríþraut. Hún keppir í flokki atvinnumanna í heimsbikarkeppni Alþjóðaþríþrautarsambandsins. Fyrr á árinu varð Guðlaug Edda heimsmeistari í tvíþraut. Guðlaug lenti í 20. sæti á Evrópumeistaramótinu í þríþraut sem fram fór í Glasgow og náði best 16. sæti í Cagliari í bikarkeppni í ólympískri þríþraut (1,5km sund, 40km hjól, 10km hlaup). Guðlaug keppti einnig í stigakeppnum á vegum Evrópska þríþrautarsambandsins og hennar besti árangur var 7. sæti í sprettþraut í Malmö í Svíþjóð.

Þríþrautarmaður ársins

Sigurður Örn Ragnarsson

Þríþrautarmaður ársinsSigurður Örn tók miklum framförum í ár og er þetta í fyrsta skipti sem hann er valinn Þríþrautarmaður ársins. Hann keppti í flokki atvinnumanna á Evrópumótaröðinni í Quarteira fyrr á árinu og lenti í 53. sæti. Þá hóf hann einnig að keppa sem atvinnumaður í Ironman þríþrautarmótaröðinni í hálfum járnmanni og hans besti árangur var 22. sæti í Rugen í Þýskalandi í flokki atvinnumanna. Sigurður varð bikar- og Íslandsmeistari í þríþraut árið 2018 og náði jafnframt hraðasta tíma sem Íslendingur hefur náð í hálf-ólympískri þríþraut í Hafnarfirði fyrr á árinu. Sigurður náði jafnframt góðum árangri í einstaka íþróttagreinum innan þríþrautarinnar, en hann hafnaði í 3. sæti í 1500 metra skriðsundi á Íslandsmeistaramótinu í sundi í 50 m laug og var einnig valinn í úrtakshóp fyrir hjólreiðalandslið Íslands.
0068