Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12.11.2024 - 12.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
12

Fimleikamaður ársins

Valgarð Reinhardsson

Fimleikamaður ársinsValgarð varð Íslandsmeistari í fjölþraut á árinu, auk þess sem hann vann sigur á fjórum áhöldum af sex í keppni á einstökum áhöldum. Hann varð einnig bikarmeistari með liði sínu Gerplu. Valgarð stóð sig vel í alþjóðlegum verkefnum og vann meðal annars bronsverðlaun á svifrá á Norður-Evrópumóti. Einnig komst hann í úrslit á gólfæfingum á heimsbikarmóti í Koper, en hann var einnig varamaður í úrslit á tvíslá á sama móti. Á árinu keppti Valgarð einnig á Evrópuleikunum í Minsk og heimbikarmóti í Melbourne í Ástralíu.

Fimleikakona ársins

Agnes Suto-Tuuha

Fimleikakona ársinsAgnes hefur verið í fremstu röð í keppni í áhaldafimleikum kvenna hér á Íslandi í áraraðir. Agnes varð Íslandsmeistari í fjölþraut 2019 og í verðlaunasætum á öllum áhöldum. Hún varð bikarmeistari 2019 með Gerplu og sigraði GK-meistaramótið. Agnes tók þátt í öllum landsliðsverkefnum vorannar, sem byrjaði með Evrópumótinu í Póllandi. Þaðan lá leiðin á Flanders international team challenge og að lokum vann hún sér sæti inn á Evrópuleikana í Minsk, en hún var eini kvenkyns keppandi Íslands á leikunum í fimleikum. Að leikunum loknum lagði hún áhaldafimleikabolinn á hilluna og lauk keppnisárinu með því að taka þátt í sínu fyrsta hópfimleikamóti þegar hún keppti með liði Gerplu á Norðurlandamótinu í hópfimleikum.

Bogfimimaður ársins

Guðmundur Örn Guðjónsson

Bogfimimaður ársinsGuðmundur byrjaði að stunda bogfimi fyrir sjö árum. Hann vann Íslandsmeistaratitilinn í sveigboga í ár og var eini Íslendingurinn sem vann alþjóðlega hluta Íslandsmótsins. Guðmundur er efstur á heimslista af Íslendingum í báðum bogaflokkum, en það er mjög sjaldgæft að íþróttamenn keppi í báðum greinum. Guðmundur vann til silfurverðlauna í sveigboga á Evrópuleikum 30+ á Ítalíu í júní. Hann vann einnig til bronsverðlauna í víðavangsbogfimi á sama móti og var í 3. sæti í undankeppni í trissuboga. Guðmundur sló Íslandsmetið í sveigboga innandyra í nóvember með skorið 582 af 600.

Bogfimikona ársins

Guðbjörg Reynisdóttir

Bogfimikona ársinsGuðbjörg byrjaði að stunda bogfimi fyrir fjórum árum og keppir í berboga flokki sem er bogi án miðs eða aukabúnaðar. Guðbjörg vann Íslandsmeistaratitilinn bæði innan- og utandyra í opnum flokki berboga kvenna á árinu, ásamt því að vinna báða titlana í U21 flokki.Guðbjörg náði 4. sæti á EM U21 í víðavangsbogfimi í Slóveníu í október og skoraði auk þess hæsta skor mótsins í riðlakeppninni af öllum konum í opnum flokki og U21. Hún vann tvenn silfurverðlaun á Norðurlandamótinu í ár, sló fjögur Íslandsmet á árinu, tvisvar í opnum flokki og tvisvar í U21 flokki, ásamt því að vera efsta konan í öllum mótum sem hún keppti í á Íslandi á árinu. Guðbjörg stefnir á keppni á HM U21 í víðavangsbogfimi og í Norðurlandamótinu á næsta ári.

Skylmingamaður ársins

Andri Nikolaysson Mateev

Skylmingamaður ársinsAndri vann það einstaka afrek að verða Norðurlandameistari og Íslandsmeistari í karlaflokki, í liðakeppni og í flokki 20 ára og yngri á árinu. Þetta er fjórða árið í röð sem Andri vinnur meistaratitla í flokki U20 og í opnum flokki.

Skylmingakona ársins

Mekkín Elísabet Jónudóttir

Skylmingakona ársinsMekkín varð Íslandsmeistari og Reykjavíkurleikameistari árið 2019. Hún hafnaði í öðru sæti á Norðulandameistaramótinu á árinu.

Frjálsíþróttamaður ársins

Hilmar Örn Jónsson

Frjálsíþróttamaður ársinsHilmar bætti á árinu 11 ára gamalt Íslandmet í sleggjukasti þegar hann kastaði 75,26m. Hilmar sýndi mikinn stöðugleika á árinu og sigraði m.a. á sterku kastmóti í Bottnaryd í Svíþjóð í lok júní. Hilmar varð svæðismeistari NCAA í fjórða sinn fyrr á árinu og skrifaði nafn sitt þar með í sögubækurnar. Einnig bætti hann Íslandmet sitt í lóðkasti með 15kg lóði þegar hann kastaði 21,37m. Hilmar var í glæsilegu sigurliði Íslands í þriðju deild Evrópukeppni landsliða sem fram fór í sumar. Hilmar Örn endaði árið í 26. sæti Evrópulistans, 38. sæti heimslistans og hefur náð lágmarki fyrir Evrópumeistaramótið 2020 sem fram fer í París.

Frjálsíþróttakona ársins

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir

Frjálsíþróttakona ársinsGuðbjörg Jóna setti á árinu glæsileg íslandsmet í 100m hlaupi á 11,56sek og í 200m hlaupi á 23,45sek. Hún sigraði á Bauhaus International í Þýskalandi í 100m hlaupi og varð önnur í 200m hlaupi. Einnig jafnaði hún Íslandsmet í 60m hlaupi innanhúss á 7,47sek. Á EM U20 ára varð hún í 4. sæti í 100m hlaupi, hársbreidd frá verðlaunum. Guðbjörg var í sigursveit Íslands á NM U20 ára í 4x400m hlaupi. Guðbjörg var einnig í sigurliði Íslands í þriðju deild Evrópukeppni landsliða. Hún er í 59. sæti á Evrópulista fullorðinna og í 6. sæti U20 ára.

Skotíþróttamaður ársins

Ásgeir Sigurgeirsson

Skotíþróttamaður ársinsÁsgeir er Skotíþróttamaður ársins. Hann sigraði í öllum þeim mótum sem hann tók þátt í hérlendis og er ríkjandi Íslandsmeistari í loftskammbyssu. Hann varð Þýskalandsmeistari með liði sínu, SGi Ludwigsburg í þýsku bundesligunni í vor. Á Heimsbikarmóti ISSF í Kína í apríl hafnaði hann í 35. sæti af 97 keppendum. Hann sigraði á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi í maí. og í ágúst varð hann í 23. sæti af 87 keppendum á Heimsbikarmóti ISSF. Ásgeir er sem stendur í 56. sæti á heimslistanum og í 39. sæti á Evrópu-listanum.

Skotíþróttakona ársins

Jórunn Harðardóttir

Skotíþróttakona ársinsJórunn er Skotíþróttakona ársins. Hún sigraði á flestum þeim mótum sem hún tók þátt í hérlendis. Hún varð Íslandsmeistari í loftskammbyssu, í 50m liggjandi riffli og í þrístöðuriffli. Hún hafnaði í 58. sæti á Evrópumeistaramótinu í Króatíu á árinu.

Siglingakona ársins

Hulda Lilja Hannesdóttir

Siglingakona ársinsHulda er valin Siglingakona ársins sjöunda árið í röð. Hulda vann öll mót sem haldin voru hérlendis á árinu. Auk þess tók hún þátt í fjórum alþjóðlegum mótum fyrir hönd Íslands. Hulda hefur skarað fram úr í siglingaíþróttinni um árabil og hefur verið á afreksstyrk hjá Alþjóðasiglingasambandinu síðastliðin tvö ár. Hún æfir íþrótt sína erlendis og stefnir á þátttöku í siglingum á Laser Radial á Ólympíuleikunum í Tókýó.

Sundmaður ársins

Anton Sveinn Mckee

Sundmaður ársinsAnton býr nú í Vestur-Virginíuríki þar sem hann stundar æfingar en hann tók sér ársleyfi frá vinnu og fluttist þangað frá Boston, til að ná hámarksárangri fyrir Ólympíuleikana í Tókýó 2020. Hann er Sundmaður ársins annað árið í röð. Anton Sveinn náði ótrúlega góðum árangri á árinu 2019. Hann synti á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi í maí þar sem hann vann til þriggja gullverðlauna og setti eitt Íslandsmet. Á heimsmeistaramótinu í 50m laug í Suður- Kóreu í júlí náði hann í milliriðla í 200m bringusundi og þar náði hann Ólympíulágmarki og bætti tvö Íslandsmet, í 50m og 100m bringusundi. Anton setti 7 Íslandsmet á Evrópumeistaramótinu í 25m laug í Glasgow, ásamt einu Norðurlandameti og hann jafnaði annað. Hann setti einnig eitt landsmet í boðsundi með karlaboðsundsveit Íslands. Þá náði hann inn í úrslit í öllum þremur einstaklingsgreinum sínum á mótinu og náði best 4. sæti. Árangur Antons gerir hann að fimmta hraðasta sundmanni heims í 200m bringusundi á árinu. Anton Sveinn er fyrirmynd í sem og fyrir utan laugina. Hann kemur vel fyrir, hefur sýnt elju við að miðla sinni reynslu til ungs og upprennandi sundfólks og má vera stoltur af sínum afrekum.

Sundkona ársins

Eygló Ósk Gústafsdóttir

Sundkona ársinsEygló Ósk náði bestum árangri íslenskra kvenna í sundi á árinu 2019. Hún tók þátt í Smáþjóðaleikunum sem haldnir voru í Svartfjallalandi og vann þar til þriggja gullverðlauna í 50m, 100m og 200m baksundi. Eygló Ósk náði þar lágmarki á heimsmeistaramótið í 50m laug sem haldið var í Suður-Kóreu í júlí. Þar tók hún þátt í 50m og 100m baksundi. Eygló náði einnig lágmörkum á Norðurlandameistaramótið í Færeyjum og Evrópumeistaramótið í 25m laug í Glasgow. Hún ákvað að keppa einungis á EM25, enda voru mótin haldin nánast á sama tíma. Í Glasgow varð Eygló 24. í 100m baksundi, 18. í 200m baksundi og 23. í 50m baksundi. Að auki var hún hluti íslensku boðsundssveitarinnar sem setti landsmet í 4x50 metra skriðsundi á EM25. Hún mun einbeita sér að því á næstu mánuðum að ná lágmörkum fyrir Ólympíuleikana í Tókýó 2020.

Kylfingur ársins

Guðmundur Ágúst Kristjánsson

Kylfingur ársinsGuðmundur Ágúst varð Íslandsmeistari í höggleik á árinu í fyrsta skipti. Hann lék á Nordic Golf League atvinnumannamótaröðinni þar sem hann sigraði á þremur mótum og vann sér um leið þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni sem er næststerkasta atvinnumannamótaröð í Evrópu. Guðmundur hóf árið í 1656. sæti á heimslista atvinnumanna en er nú efstur Íslendinga í 558. sæti. Þetta er í fyrsta sinn sem Guðmundur Ágúst er valinn Kylfingur ársins.

Kylfingur ársins

Valdís Þóra Jónsdóttir

Kylfingur ársinsValdís Þóra er Kylfingur ársins í þriðja sinn. Hún lék sitt þriðja tímabil á Evrópumótaröðinni í golfi og endaði tímabilið í 71. sæti á stigalista mótaraðarinnar. Valdís náði sínum besta árangri í Ástralíu í mars þegar hún lenti í 5. sæti. Valdís var lengi vel í forystu í mótinu en hún lék á 63 höggum á fyrsta hring, sem var besta skor mótsins. Valdís komst í gegnum niðurskurðinn á 7 mótum af 14 á Evrópumótaröðinni á árinu.

Lyftingakona ársins

Þuríður Erla Helgadóttir

Lyftingakona ársinsÞuríður Erla hlýtur titilinn Lyftingakona ársins fimmta árið í röð. Þuríður keppti á fjórum mótum á árinu og náði besta árangri sínum á Evrópumeistaramótinu í Georgíu í apríl þegar hún snaraði nýju Íslandsmeti í -59kg flokki kvenna, 87kg. Hún varð efst kvenna á Reykjavíkurleikunum í janúar, í 25. sæti í sínum flokki á heimsmeistaramótinu og vann silfur á Norðurlandameistaramótinu, allt í -59kg flokki. Þuríður stefnir á þáttöku á Ólympíuleikunum í Tókýó 2020 og töldu EM, HM og NM öll sem úrtökumót fyrir leikana.

Lyftingamaður ársins

Daníel Róbertsson

Lyftingamaður ársinsDaníel er Lyftingakarl ársins 2019 og það í fyrsta sinn. Daníel keppti á fjórum mótum á árinu og náði bestum árangri á Sumarmóti LSÍ sem hann sigraði þegar hann snaraði 130kg og jafnhenti 153kg en hann vigtaðist inn 83,9kg. Það gaf honum 338,1 Sinclair stig og var með því tæpu stigi hærri en helstu keppinautar hans. Daníel varð þriðji á Reykjavíkurleikunum, efstur íslensku karlanna á Smáþjóða-leikunum í ólympískum lyftingum sem fram fóru á Möltu og í þriðja sæti á Norðurlandamótinu í -81kg þyngdarflokk karla.

Taekwondomaður ársins

Leo Anthony Speight

Taekwondomaður ársinsLeo hefur verið einn fremsti taekwondo bardagamaður á Íslandi síðustu ár. Hann hefur verið duglegur við keppni og æfingar, en sl. tvö ár hefur hann landað fjöldanum öllum af verðlaunum, bæði hér heima og erlendis, m.a. Norðurlandameistaratitli, Íslands-meistaratitlum og silfurverðlaunum á breska meistaramótinu. Hann hefur einnig verið iðinn við að keppa á G-mótum erlendis með miklum stíganda og á síðasta móti ársins, French Open, sigraði hann fyrsta bardaga sinn örugglega en rétt tapaði svo naumlega öðrum bardaga. Leo er einnig ósigraður á íslenskum mótum síðustu 4 ár, bæði í unglinga- og fullorðinsflokkum. Leo sækir æfingar aðra hverja viku í Englandi þar sem hann æfir með þeim bestu. Leo er ennfremur sérlega sterk fyrirmynd fyrir taekwondofólk á öllum aldri og af öllum getustigum. Hann kemur fram við alla af stakri hógværð, kurteisi og virðingu. Leo Anthony er ekki bara einn okkar allra bestu keppenda, heldur er hann einnig fulltrúi allra þeirra góðu gilda sem einkenna íþróttina og hugsjónina sem hún stendur fyrir. Hann er því verðugur fulltrúi taekwondoíþróttarinnar.

Taekwondokona ársins

Álfdís Freyja Hansdóttir

Taekwondokona ársinsÁlfdís byrjaði að æfa taekwondo 7 ára gömul og tók hún svarta beltið í maí 2017. Hún hefur tekið miklum framförum á undanförnum misserum og hefur árangur hennar sýnt að hún er orðin einn fremsti poomsae keppandi landsins. Hún hefur keppt á flestum innlendum mótum undanfarin ár með glæsilegum árangri. Álfdís var valin til að keppa á HM í Tapei 2018 fyrir hönd Íslands og keppti hún einnig á Norðurlandamótinu það sama ár og komst þar á verðlaunapall. Í ár keppti Álfdís á Norðurlandamótinu, Evrópumeistaramótum í traditional og beach poomsae sem fram fóru í Tyrklandi auk innlendra móta. Álfdís hefur hlotið flest gullverðlaun í poomsae á árinu allra kvenna á Íslandi. Á bikarmótum ársins fékk hún 6 gull og 3 silfur, á Íslandsmeistaramótinu 2019 í poomsae fékk hún 3 gull og var þá einnig valin kona mótsins. Hún er því verðugur fulltrúi taekwondoíþróttarinnar.

Karatemaður ársins

Aron Anh Ky Huynh

Karatemaður ársinsAron er efnilegur karatemaður sem hefur verið vaxandi í keppni undanfarin ár og hefur einbeitt sér að keppni í kata. Aron hefur verið í verðlaunasætum á fullorðinsmótum í kata innanlands sem utan. Hann náði 5. sæti á Norðurlandameistaramótinu 2019, 2. sæti á Helsinki Open, bæði í U21 og í fullorðinsflokki. Hann sigraði Reykjavik International Games 2019 og var í 2. sæti á Íslandsmeistaramótinu og á Bikarmóti KAÍ.

Karatekona ársins

Freyja Stígsdóttir

Karatekona ársinsFreyja hefur verið sigursæl karatekona síðustu ár í sínum aldursflokki. Hún keppir í kata og kumite og hefur náð frábærum árangri á árinu. Hún varð í öðru sæti á Norðurlandameistaramótinu 2019 í sínum flokki auk þess að verða Bikarmeistari kvenna eftir að hafa sigrað á þremur bikarmótum á árinu. Hún hefur verið í verðlaunasætum erlendis sem og innanlands síðustu ár.

Júdómaður ársins

Sveinbjörn Jun Iura

Júdómaður ársinsSveinbjörn er nú valinn Júdómaður ársins í þriðja skiptið. Sveinbjörn keppir í -81 kg flokki og hefur sett markið á Ólympíuleikanna í Tókýó 2020. Hann lagði megin áherslu á að keppa á úrtökumótum fyrir leikana á árinu sem er að líða. Bestum árangri náði Sveinbjörn þegar hann vann til bronsverðlauna á heimsbikarmóti í Hong Kong. Sveinbjörn er þriðji Íslendingurinn til þess að vinna verðlaun á heimsbikarmóti síðan núverandi kerfi komst á laggirnar árið 1993. Einnig komst Sveinbjörn í aðra umferð á stórmótunum Grand Slam París og Grand Slam Abu Dhabi og var fulltrúi Íslands á Evrópuleikunum í Minsk. Einnig varð hann þriðji á Reykjavík International Games.

Júdókona ársins

Ásta Lovísa Arnórsdóttir

Júdókona ársinsÁsta Lovísa er nú valin Júdókona ársins í annað skiptið. Hún keppir ýmist í -57kg eða -63 kg flokki . Ásta er yfirðburða keppandi hér á landi þrátt fyrir að þurfa oft að keppa við þyngri andstæðinga, en Ásta var stigahæst allra kvenna yfir alla þyngdarflokka á árinu. Helsti árangur hennar á árinu var Íslandsmeistaratitill í -63kg flokki og sigur á Vormóti JSÍ í sama flokki. Einnig varð hún í þriðja sæti á alþjóðlegu móti í Svíðþjóð.

Hnefaleikamaður ársins

Emin Kadri Eminsson

Hnefaleikamaður ársinsEmin er Hnefaleikamaður ársins annað árið í röð. Emin er einn efnilegasti hnefaleikamaður landsins. Hann byrjaði árið á að keppa á hnefaleikamóti á Norður-Írlandi, þar sem hann sigraði keppanda frá Írlandi. Hann var einnig valinn besti hnefaleikamaðurinn á mótinu, sem telst góður árangur þar sem sterkir keppendur voru þar á meðal. Emin var skráður á Íslandsmeistaramótið en því miður var enginn skráður í hans flokk. Emin tók þátt fyrir hönd Íslands á Norðurlandamótinu sem haldið var í Finnlandi, þar sigraði hann Finnland í undanúrslitum enn tapaði gegn sterkum Dana í úrslitum. Í maí keppti Emin á sterku móti í London þar sem hann stóð sig vel en þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Breta sem er nú orðinn atvinnumaður í greininni. Emin hefur verið mjög virkur í keppnum og er nú búin að keppa sautján sinnum og sigra fjórtán af þeim viðureignum.

Hnefaleikakona ársins

Kristín Sif Björgvinsdóttir

Hnefaleikakona ársinsKristín Sif er Hnefaleikakona ársins annað árið í röð. Kristín hefur átt 12 viðureignir á ferli sínum, þar af 6 á liðnu ári og sigrað 4 af þeim. Hún hreppti silfurverðlaun á Norðurlandamótinu í hnefaleikum annað árið í röð. Það er í fyrsta skiptið sem íslensk hnefaleikakona nær þeim árangri. Kristín hreppti einnig silfurverðlaun á Legacy cup, sterku alþjóðlegu móti sem haldið var í Noregi í október sl. Kristín Sif er einnig Íslandsmeistari í -75kg flokki kvenna.

Glímumaður ársins

Ásmundur Hálfdán Ásmundsson

Glímumaður ársinsÁsmundur er Glímumaður ársins í fjórða skiptið, fjögur ár í röð. Ásmundur hefur stundað glímu í um 17 ár og hefur verið afar sigursæll á árinu. Helstu afrek hans á árinu voru þegar hann hlaut Grettisbeltið í fjórða sinn og varð þrefaldur Evrópumeistari í keltneskum fangbrögðum. Ásmundur hefur verið einn fremsti glímumaður Íslands undanfarin ár og er fyrirmyndar íþróttamaður jafnt innan vallar sem utan.

Glímukona ársins

Marín Laufey Davíðsdóttir

Glímukona ársinsMarín Laufey er Glímukona ársins í sjötta skiptið. Hún hefur stundað glímu í um 13 ár og hlotið Freyjumenið fimm sinnum. Marín átti góðu gengi að fagna á glímuvellinum á árinu, en hún var í verðlaunasæti á öllum þeim mótum sem hún tók þátt í og þá má helst nefna tvo Evrópumeistaratitla í keltneskum fangbrögðum og verðlaun fyrir að vera kona mótsins á Evrópumótinu. Marín er fyrirmyndar íþróttakona jafnt innan vallar sem utan.

Kraftlyftingamaður ársins

Júlían J. K. Jóhannsson

Kraftlyftingamaður ársinsJúlían er nú í fimmta sinn valinn Kraftlyftingakarl ársins, en hann hefur haslað sér völl sem einn af sterkustu keppendum heims í +120 kg flokki. Júlían vann bronsverðlaun fyrir samanlagðan árangur á heimsmeistaramóti í Dubaí í nóvember sl. en þar bætti hann jafnframt sitt eigið heimsmet í réttstöðulyftu með 405,5 kg og tryggði sér gullverðlaun í greininni. Heildarþyngdin sem Júlían lyfti á heimsmeistaramótinu voru 1148 kg., en það er mesta þyngd sem íslenskur kraftlyftingamaður hefur lyft. Í maí sl. hlaut Júlían silfurverðlaun á Evrópumeistarmóti fyrir samanlagðan árangur en hlaut þar einnig gull í réttstöðu. Hann lýkur í ár sínu þriðja keppnistímabili í opnum flokki og er í þriðja sæti á heimslista IPF Alþjóðakraftlyftingasambandsins í +120kg. flokki.

Kraftlyftingarkona ársins

Sóley Margrét Jónsdóttir

Kraftlyftingarkona ársinsSóley Margrét er nú í fyrsta sinn valin Kraftlyftingakona ársins. Sóley varð Íslandsmeistari og bikarmeistari í opnum flokki á árinu, en hún keppir í +84 kg. flokki og á öll Íslandsmet í kraftlyftingum í flokknum. Samanlagður árangur hennar 632,5 kg er mesta þyngd sem íslensk kraftlyftingakona hefur lyft. Sóley lýkur sínu síðasta keppnistímibili í stúlknaflokki 18 ára og yngri í ár, en í þeim aldurshópi hefur hún haft mikla yfirburði og er ríkjandi Heims- og Evrópumeistari. Hún setti á árinu heimsmet stúlkna í hnébeygju með 265,5 kg. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Sóley náð afrekslágmörkum í opnum flokki og keppti á heimsmeistaramótinu í Dúbaí 2019 þar sem hún hafnaði í 7. sæti. Árangur hennar hefur tryggt henni 7. sæti á heimslista IPF Alþjóðakraftlyftingasambandsins í +84kg flokki.

Akstursíþróttamaður ársins

Eyþór Reynisson

Akstursíþróttamaður ársinsEyþór hefur verið með okkar allra fremstu íþróttamönnum í motocrossi til margra ára. Hefur hann unnið átta Íslandsmeistara-titla, bæði í motocrossi og enduro. Eyþór er einn fárra sem hefur keppt að staðaldri erlendis og þar hefur hann náð þriðja sæti í Belgíska meistaramótinu ásamt því að keppa í Bretlandi, Spáni, Danmörku og á heimsmeistara-mótaröðinni sem haldin er um allan heim. Eyþór hefur jafnframt tekið þátt fyrir hönd Íslands í Motocross of Nations síðustu ár þar sem þrír bestu ökumenn frá hverju landi spreyta sig ár hvert sem lið á móti hvor öðrum og þykir þátttaka í þessari keppni einn sá mesti heiður sem ökumanni hlotnast.Eyþór er einn fremsti ökumaður sem Ísland hefur af sér alið til dagsins í dag.

Mótorhjóla- og snjósleðakona ársins

Aníta Hauksdóttir

Mótorhjóla- og snjósleðakona ársinsAníta er margfaldur Íslandsmeistari í motocrossi og enduro. Ásamt því að hafa keppt hér á landi tók Aníta þátt í erfiðustu keppnum í enduro sem haldnar eru í heiminum, þ.á.m. Red Bull í Rúmeníu. Aníta hefur einnig keppt í Bandaríkjunum, Bretlandi og á Spáni.Aníta varð önnur til Íslandsmeistara í motocrossi í ár og varð einnig önnur til Íslandsmeistara í enduro. Það sem vakti athygli við árangur Anítu í ár er að hún eignaðist sitt annað barn á árinu og gaf sér samt tíma til að taka þátt í framangreindum mótum. Það er ekki síst hegðun og jákvæðni Anítu sem hefur skinið í gegn í ár bæði innan sem utan brautar og verið til fyrirmyndar. Þetta er í þriðja sinn sem Aníta er valin Akstursíþróttakona ársins.

Körfuknattleiksmaður ársins

Martin Hermannsson

Körfuknattleiksmaður ársinsMartin er kjörinn Körfuknattleikskarl ársins með fullt hús stiga. Martin er einn mikilvægasti leikmaður íslenska landsliðsins og hefur sýnt stöðugar framfarir í leik sínum undanfarin ár og hann er einn af framtíðarleikmönnum íslenska landsliðsins. Martin samdi við Alba Berlin fyrir síðasta tímabil þar sem hann átti mjög gott ár og vakti verðskuldaða athygli. Hann átti stóran þátt í velgengni liðsins sem hafnaði í 2. sæti í deild og bikar í Þýskalandi sem og í 2. sæti í Europe Cup þar sem liðið lék oddaleik gegn Valencia. Í ár hefur Martin haldið áfram að bæta sig og orðið annar íslendingurinn til að leika í EuroLeague, meistaradeild Evrópu í körfuknattleik. Þar hefur Martin leikið vel gegn mörgum stærstu liðum deildarinnar og sinnt leiðtogahlutverki með Alba Berlin. Martin hélt uppteknum hætti með íslenska landsliðinu og var leiðtogi þess innan vallar í tölfræðiþáttum eins og stigum skoruðum, stoðsendingum og framlagi á árinu.

Körfuknattleikskona ársins

Helena Sverrisdóttir

Körfuknattleikskona ársinsHelena hefur verið valin Körfuknattleikskona árins 12 sinnum á síðustu 15 árum sem er einstakt afrek. Helena var lykilleikmaður Vals á síðustu leiktíð og leiddi lið sitt til deildarmeistaratitils, Íslandsmeistaratitils sl. vor eftir úrslitakeppnina og Bikarmeistaratitils í febrúar, en þetta voru fyrstu stóru titlar kvennakörfunnar í Val. Helena lauk tímabilinu með því að vera kjörin besti leikmaðurinn í deildinni á lokahófi KKÍ. Í ár er hún sá íslenski leikmaður sem hefur að meðaltali skorað mest, tekið flest fráköst og skilar hæðsta framlaginu í deildinni. Með íslenska landsliðinu hefur Helena leikið mjög vel, bæði í síðustu undankeppni þar sem hún fór fyrir liðinu í helstu tölfræðiþáttum sem og í nýhafinni undankeppni FIBA Europe þar sem hún leiðir liðið í tölfræðiþáttum yfir stig skoruð, fráköstum og er önnur yfir flestar stoðsendingar.

Mótorhjóla- og snjósleðamaður ársins

Steingrímur Bjarnason

Mótorhjóla- og snjósleðamaður ársinsSteingrímur náði þeim frábæra árangri í sumar að verða Íslandsmeistari í tveimur greinum, götubílaflokk í torfæru ásamt því að vinna jeppaflokk í sandspyrnu á fullu húsi stiga. Steingrímur á gríðarlega margar keppnir að baki ásamt mörgum sigrum og tilþrifaverðlaunum. Steingrímur endurtók leikinn frá því fyrir 10 árum síðan þar sem hann varð einnig Íslandsmeistari í sömu greinum.

Akstursíþróttakona ársins

Guðríður Ósk Steinarsdóttir

Akstursíþróttakona ársinsGuðríður Ósk Steinarsdóttir hóf að keppa í 1000 flokki í rallycrossi haustið 2018. Hún er nú valin Akstursíþróttakona ársins í fyrsta sinn. Guðríður Ósk keppir í fjölmennasta flokknum í rallycrossi og náði öðru sæti á Íslandsmeistaramótinu. Hún hefur sýnt hörkuakstur og kemur vel fyrir og er íþrótt sinni til sóma.

Dansarar ársins

María Tinna Hauksdóttir og Gylfi Már Hrafnsson

Dansarar ársinsMaría og Gylfi hafa átt mjög gott ár sem samanstendur af góðum árangri, bæði á Íslandi sem og erlendis. Þau eru Íslandsmeistarar í ungmenni standard og í ungmennum 10 dönsum og hafa verið í fjölmörgum úrslitum erlendis á síðasta ári ásamt því að ná afbragðsárangri í flokki fullorðinna nú í október er þau unnu sér rétt til að dansa inni í The Royal Albert Hall. Þau lentu í 3. sæti í flokki ungmenna í standard dönsum á opnu heimsmeistaramóti nú í desember.

Karlkeilari ársins

Arnar Davíð Jónsson

Karlkeilari ársinsArnar Davíð er Karlkeilari ársins í þriðja sinn og annað árið í röð. Arnar sigraði Evrópumótaröð keilunnar 2019 fyrstur íslenskra keilara en alls voru 13 mót á mótaröðinni í ár. Hann var eini keppandinn á mótaröðinni sem sigraði fleiri en eitt mót á tímabilinu. Hann vann Track open mótið í Þýskalandi og að auki sigraði hann á lokamóti Evrópuraðarinnar Kegel Ålaborg International þar sem hann gulltryggði sé efsta sæti mótaraðarinnar í ár. Arnar tók þátt í lokamóti Heimstúrsins Kuwait International Open í nóvember en til Kúveit var honum boðið af Heimssambandinu, World Bowling, til að leika í úrslitum heimstúrsins sem fóru fram strax að því móti loknu. Arnar gerði sér lítið fyrir og var í efsta sæti lokamótsins og tryggði sér þátttöku í úrslitaleik mótsins þar sem hann laut í lægra haldi gegn Dominic Barrett frá Englandi, margföldum meistara. Arnar varð einnig í 2. sæti í úrslitum heimstúrsins. Hann hefur hingað til náð besta árangri íslensk keilara í sögunni.

Kvenkeilari ársins

Ástrós Pétursdóttir

Kvenkeilari ársinsÁstrós er Kvenkeilari ársins annað árið í röð og alls í fjórða sinn. Ástrós varð stigameistari á liðnu keppnistímabili á Íslandsmóti liða og var með besta meðaltal allra í kvennadeildum á því tímabili. Ástrós var ofarlega í öllum mótum innanlands sem hún tók þátt í meðal annars varð hún í 2. sæti á Íslandsmóti einstaklinga 2019 og sömuleiðis í 2. sæti á Íslandsmóti para. Hún tók þátt í öllum verkefnum afrekshóps kvenna og meðal annars fór hún á mót í Noregi sem var hluti af Evróputúrnum. Spilaði hún þar best íslensku kvenkeilaranna.

Knattspyrnumaður ársins

Gylfi Þór Sigurðsson

Knattspyrnumaður ársinsGylfi Þór er Knattspyrnumaður ársins í áttunda skipti, en hann hefur hlotið nafnbótina frá árinu 2012. Gylfi Þór leikur með Everton í ensku úrvalsdeildinni og hefur verið þar lykilmaður undanfarin ár. Hann lék tíu leiki með íslenska karlalandsliðinu á árinu og skoraði í þeim tvö mörk.

Knattspyrnukona ársins

Sara Björk Gunnarsdóttir

Knattspyrnukona ársinsSara Björk er Knattspyrnukona ársins í sjötta skipti og fimmta árið í röð. Sara Björk hefur verið lykilmaður í einu sterkasta liði Evrópu, Wolfsburg, frá 2016, en á síðasta tímabili vann liðið bæði deild og bikar heima fyrir. Liðið hefur farið vel af stað á þessu tímabili og er efst í þýsku úrvalsdeildinni. Sara Björk er fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins og lék á árinu níu landsleiki og skoraði eitt mark.

Knapi ársins

Jóhann Rúnar Skúlason

Knapi ársinsJóhann er valinn Knapi ársins í fjórða sinn. Jóhann vann það einstaka afrek á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Berlín 2019 að vinna þrefaldan heimsmeistaratitil á hestinum Finnboga frá Minni-Reykjum. Jóhann varð heimsmeistari í tölti T1, fjórgangi V1 og samanlögðum fjórgangsgreinum. Þá hlaut Jóhann reiðmennskuverðlaun FEIF sem afhent er þeim sem þykir sýna besta reiðmennsku á HM. Þar með eru heimsmeistaratitlar Jóhanns orðnir 13 talsins frá árinu 1999. Þá á Jóhann hæstu einkunn ársins í tölti T1 í heiminum og hann sigraði í tölti á öllum mótum sem hann tók þátt í á árinu, í Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi.

Skautakona ársins

Aldís Kara Bergsdóttir

Skautakona ársinsAldís Kara keppir í unglingaflokki og er þetta í fyrsta sinn sem hún hlýtur titilinn Skautakona ársins. Aldís Kara er vel að viðurkenningunni komin þar sem hún hefur sýnt mikinn dugnað og metnað við iðkun íþróttarinnar. Hún hefur sýnt góðan stöðugleika í keppnum og verið á mikilli siglingu og náði hún á árinu lágmarks tæknistigum ISU í stuttu prógrammi. Fyrir utan innlend mót á vegum ÍSS á árinu 2019 hefur Aldís Kara keppt á RIG, Norðurlandamóti, Junior Grand Prix og á Halloween Cup. Hún bætti stigamet hjá íslenskum skautara á RIG með 108,45 stig. Á Norðurlandamótinu hlaut hún 103,52 stig, en það eru hæstu stig sem íslenskur skautari hefur fengið á Norðurlandamóti. Aldís Kara er kappsfull íþróttakona sem leggur sig fram í íþrótt sinni. Hún er yngri iðkendum góð fyrirmynd bæði í framkomu og viðhorfi til íþróttarinnar.

Íshokkímaður ársins

Róbert Freyr Pálsson

Íshokkímaður ársinsRóbert Freyr er fyrirliði meistaraflokks Umf. Fjölnis. Hann vann silfurverðlaun með landsliði Íslands á heimsmeistaramóti Alþjóða Íshokkísambandsins í apríl sl., skoraði þar eitt mark og átti tvær stoðsendingar. Hlutverk Róberts með landsliðinu hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár og er hann nú fyrirliði landsliðsins sem tekur þátt í undankeppni Ólympíuleikanna 2022. Róbert Freyr er þekktur fyrir baráttu sína og vinnusemi, hann er frábær liðsfélagi og hefur ætíð verið tilbúinn til að taka þátt í landsliðsverkefnum og er til fyrirmyndar í alla staði.

Íshokkíkona ársins

Kolbrún María Garðarsdóttir

Íshokkíkona ársinsKolbrún María hefur frá unga aldri leikið með Skautafélagi Akureyrar og varð Íslandsmeistari með liðinu 2019 þar sem hún var næststigahæsti leikmaður deildarinnar með 27 stig í 10 leikjum. Kolbrún vann bronsverðlaun með íslenska kvennalandsliðinu á heimsmeistaramóti Alþjóðaíshokkísambandsins í apríl sl. þar sem hún skoraði þrjú mörk og átti þrjár stoðsendingar. Kolbrún María var valin besti leikmaður íslenska landsliðsins á mótinu. Kolbrún María er vel að titlinum komin enda frábær leikmaður í alla staði, öflugur liðsfélagi, frábær fyrirmynd og er íshokkíhreyfingunni á Íslandi til mikils sóma.

Þríþrautarmaður ársins

Sigurður Örn Ragnarsson

Þríþrautarmaður ársinsSigurður er Þríþrautarmaður ársins annað árið í röð. Hann keppti í flokki atvinnumanna í Ironman mótaröðinni í hálfum járnkarli og náði bestum árangri Íslendings frá upphafi í þeirri mótaröð þegar hann náði 8. sæti í Finnlandi. Sigurður varð Íslandsmeistari í ofur-sprettþraut og í ólympískri þríþraut og bikarmeistari Þríþrautar-sambandsins. Sigurður setti brautarmet í ofursprettþraut og sprettþraut auk þess að vinna öll bikarmót Þríþrautarsambandsins. Sigurður náði einnig góðum árangri í einstaka íþróttum innan þríþrautarinnar, hann hafnaði t.d. í öðru sæti í heildina í hálfu maraþoni Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka.

Þríþrautarkona ársins

Guðlaug Edda Hannesdóttir

Þríþrautarkona ársinsGuðlaug er Þríþrautarkona ársins þriðja árið í röð. Hún hefur verið búsett í Danmörku sl. þrjú ár og æft með danska þríþrautarlandsliðinu. Nýlega flutti hún aftur til Íslands og æfir nú undir leiðsögn Ian O'brien en hann var valinn þjálfari ársins af bandaríska þríþrautarsambandinu. Hún keppir í flokki atvinnumanna hjá Alþjóðaþríþrautarsambandinu og er mjög nálægt því að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum 2020. Guðlaug hefur náð mjög góðum árangri í ár, en hún endaði í 14. sæti á Evrópameistaramótinu í þríþraut sem fram fór í Hollandi og náði sínum besta árangri í heimsbikarskeppninni þegar hún endaði í 15. sæti í Japan. Einnig varð hún fyrst Íslendinga til að klára keppni í heimsúrvalsseríunni í þríþraut (WTS) en hún endaði í 26. sæti í keppni sem fram fór í Kanada. Guðlaug hefur líka keppt í stigakeppnum á vegum Evrópska þríþrautarsambandsins með góðum árangri, en hún komst m.a. á verðlaunapall í sprettþraut í Svíþjóð þar sem hún endaði í 3. sæti. Þá náði hún 2. sæti í Afríkubikarmóti sem fram fór í Marakó í nóvember.

Íþróttamaður fatlaðra

Már Gunnarsson

Íþróttamaður fatlaðraMár á einkar glæsilegt íþróttaár að baki sem náði hámarki á heimsmeistaramóti fatlaðra í sundi sem fram fór í London. Þar varð Már einn Norðurlandabúa til þess að komast á verðlaunapall þegar hann setti nýtt og glæsilegt Íslandsmet í 100m baksundi og vann til bronsverðlauna í greininni. Á árinu setti Már alls 28 Íslandsmet og synti þrívegis undir gildandi heimsmeti á ÍM25 í Ásvallalaug. Már stefnir ótrauður að þátttöku á Paralympics í Tókýó 2020, en takist það ætlunarverk hans verður það í fyrsta sinn sem hann keppir á leikunum.

Íþróttakona fatlaðra

Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir

Íþróttakona fatlaðraBergrún er nú í annað sinn valin Íþróttakona ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra. Bergrún á glæsilegt keppnisár að baki þar sem heimsmeistaratitill hennar í langstökki ungmenna (U20) í Sviss ber hvað hæst. Bergrún hafnaði í 5. sæti á heimsmeistaramóti IPC í langstökki þar sem hún náði sínu besta stökki á alþjóðlegu stórmóti er hún stökk 4,26 metra. Bergrún stefnir ótrauð að þátttöku á Paralympics í Tókýó 2020, en takist það ætlunarverk hennar verður það í fyrsta sinn sem hún keppir á leikunum.

Tenniskona ársins

Anna Soffía Grönholm

Tenniskona ársinsAnna Soffía vann Meistaramót TSÍ, varð bæði Íslandsmeistari innanhúss og utanhúss í einliða- og tvíliðaleik, ásamt því að vera í TFK liðinu sem varð Íslandsmeistari í meistaraflokki kvenna í liðakeppni TSÍ. Hún vann einn einliðaleik á Fed Cup í ár.

Tennismaður ársins

Egill Sigurðsson

Tennismaður ársinsEgill er nr. 1.709 á heimslista Alþjóðatennissambandsins (ITF). Hann vann þrjá einliðaleiki á Davis Cup í ár. Hann hefur tekið þátt á 15 mótum á atvinnumótaröð ITF á árinu, vann fjóra leiki á móti leikmönnum á heimslista ATP og vann einn leik á móti leikmanni á heimslista ITF.

Hjólreiðamaður ársins

Ingvar Ómarsson

Hjólreiðamaður ársinsIngvar átti sitt besta ár á ferlinum í ár og varð Íslandsmeistari í fjórum greinum í hjólreiðum (ólympískar og maraþon fjallahjólreiðar, tímaþraut og cyclocross) ásamt því að vera kjörinn Hjólreiðamaður ársins, sjötta árið í röð. Hann keppti á Evrópumeistaramóti í maraþon fjallahjólreiðum og hafnaði í 37. sæti, heimsmeistaramóti í ólympískum fjallahjólreiðum og hafnaði í 82. sæti, og heimsmeistaramóti í maraþon fjallahjólreiðum og hafnaði í 87. sæti, sem er jafnframt einn besti árangur Íslendings á stórmóti í hjólreiðum. Í maí tók hann þátt í Belgian Mountainbike Challenge, einu af stærstu fjallahjólamótum á BeNeLux svæðinu og lauk keppni í topp 20 í atvinnumannaflokki, sem er hans besti árangur í fjöldægrakeppni á fjallahjóli. Hér heima átti hann frábært mót í malarkeppninni The Rift, þar sem hann hafnaði í 3. sæti á eftir tveimur Bandaríkjamönnum sem eru taldir þeir bestu í heiminum í greininni. Samtals sigraði hann 12 keppnir á árinu, m.a. Bláalónsþrautina sem er ein þekktasta hjólreiðakeppni á Íslandi. Ingvar er hæst settur íslenskra karla á styrkleikalistum alþóðasambands keppnishjólreiða í fjallahjólreiðum og cyclocross.

Hjólreiðakona ársins

Ágústa Edda Björnsdóttir

Hjólreiðakona ársinsÁgústa er nú valin Hjólreiðakona ársins þriðja árið í röð. Það sem stóð upp úr á árinu hjá Ágústu var þátttaka hennar á heimsmeistaramótinu í götuhjólreiðum í Englandi í september en þar keppti hún bæði í tímatöku og í götuhjólreiðum. Varð hún þar með fyrst íslenskra kvenna til þess að taka þátt á heimsmeistaramóti í hjólreiðum. Ágústa varð Íslandsmeistari í götuhjólreiðum og tímatöku og vann báðar keppnir með miklum yfirburðum. Þá varð hún bikarmeistari í tímatöku og í 2. sæti á bikarmótinu í götuhjólreiðum. Ágústa tók einnig þátt í þriggja daga keppni á Ítalíu í júní, en keppnin þykir ein sú erfiðasta í Haute Route mótaröðinni. Þar hafnaði hún í 2. sæti í sínum aldursflokki.

Skíðamaður ársins

Snorri Einarsson

Skíðamaður ársinsSnorri er íþróttamaður ársins hjá SKÍ í fjórða skipti og jafnframt fjórða árið í röð. Snorri hefur sýnt ákveðna yfirburði innan SKÍ og er eini aðilinn sem tekur þátt í heimsbikarnum, sterkustu mótaröð heims innan FIS. Hápunktur Snorra á árinu var á heimsmeistaramótinu í Austurríki þegar hann náði 18. sæti í 50 km göngu með frjálsri aðferð. Er þetta besti árangur hjá íslenskum skíðagöngumanni frá upphafi. Hann var einungis 18 sek. frá 3. sætinu í tæplega 2 klst langri keppni. Tók Snorri stórt stökk á heimslistanum í kjölfarið, úr 288. sæti í 103. sæti. Snorri náði einnig glæsilegum árangri þegar hann endaði í 26. sæti í heimsbikar í Noregi í 50 km göngu með hefðbundinni aðferð. Snorri varð fjórfaldur Íslandsmeistari á árinu og vann allt sem hann keppti í á Skíðamóti Íslands.

Skíðakona ársins

María Finnbogadóttir

Skíðakona ársinsMaría varð Íslandsmeistari í svigi árið 2019 og endaði í 6. sæti í stórsvigi á Skíðamóti Íslands. Hún er nú valin íþróttakona ársins hjá SKÍ í fyrsta sinn. Hún hóf árið í 1244. sæti í svigi, en hefur bætt sig gríðarlega á árinu og er nú í 395. sæti. Þá keppti María fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð. Þar endaði hún í 38. sæti í svigi og rétt missti af seinni ferð í stórsvigi þar sem hún endaði í 61. sæti, en einungis 60 efstu komast í seinni ferðina. María stóð sig vel á mörgum öðrum mótum erlendis þetta árið og varð hún m.a. 5 sinnum í einu af 10 efstu sætunum og ber þar hæst 10. sæti á slóvenska meistaramótinu í svigi. Hún hefur einnig farið mjög vel af stað þennan veturinn og varð hún m.a. í 11. sæti á svigmóti í Austurríki í desember þar sem hún náði sínum bestu FIS stigum á ferlinum, 45,22.

Handknattleiksmaður ársins

Aron Pálmarsson

Handknattleiksmaður ársinsAron er vinstri skytta og leikstjórnandi spænska meistaraliðsins Barcelona. Hann varð þrefaldur meistari á Spáni á síðasta keppnistímabili með Barcelona auk þess sem liðið komst í „final four“ úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu í vor. Aron hefur blómstrað með liðinu á yfirstandandi leiktíð þar sem liðið ber höfuð og herðar yfir önnur í heimalandinu auk þess sem það hefur verið eitt það sigursælasta í Meistaradeild Evrópu fram til þessa á keppnistímabilinu. Til viðbótar hefur Aron um árabil verið lykilmaður íslenska landsliðsins. Sem atvinnumaður í handknattleik í áratug hefu Aron verið einstök fyrirmynd ungra handknattleiksiðkenda, bæði hér á landi og erlendis.

Handknattleikskona ársins

Íris Björk Símonardóttir - Knattspyrnufélagið Valur

Handknattleikskona ársinsÍris Björk er markvörður Íslands- og bikarmeistara Vals. Hún gekk til liðs við Val sumarið 2018 og var einn burðarása liðsins sem varð þrefaldur meistari á síðasta keppnistímabili. Keppnistímabilið var einstaklega glæsilegt hjá Írisi sem uppskar laun erfiðis síns í mótslok. Hún var valin besti leikmaður Olís-deildar kvenna, einnig besti markvörður deildarinnar auk þess sem henni hlotnaðist Sigríðar-bikarinn sem mikilvægasti leikmaður Olís-deildarinnar. Síðast en ekki síst var Íris Björk valin mikilvægasti leikmaður úrslitakeppni Olís-deildarinnar. Íris Björk hefur leikið 71 A-landsleik og skorað í þeim fjögur mörk. Íris Björk er fyrirmynd fyrir yngri jafnt sem eldri handknattleiksiðkendur, hvort heldur utan vallar eða innan.

Blakmaður ársins

Ævarr Freyr Birgisson - Marienlyst, Danmörk

Blakmaður ársinsÆvarr Freyr er Blakmaður ársins. Hann er uppalinn hjá KA á Akureyri en er í dag leikmaður Marienlyst í Danmörku. Á síðasta keppnistímabili endaði lið hans í 2. sæti í úrvalsdeildinni í Danmörku en í 3. sæti um danska meistaratitilinn þar sem Ævarr var í lykilhlutverki. Í ár er lið hans að berjast um toppsætin í úrvalsdeildinni og Ævarr fastamaður í liðinu. Eftir gott tímabil spilaði Ævarr með landsliðinu á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi þar sem hann var einn af burðarásum liðsins. Ævarr Freyr er frábær íþróttamaður og mikil fyrirmynd fyrir unga og efnilega blakara.

Blakkona ársins

Helena Kristín Gunnarsdóttir - Knattspyrnufélag Akureyrar

Blakkona ársinsHelena Kristín er Blakkona ársins. Hún er uppalin hjá Þrótti í Neskaupstað en er í dag leikmaður KA á Akureyri. Í vor vann KA sinn fyrsta bikarmeistaratitil og varð liðið jafnframt Íslandsmeistari í fyrsta sinn. Helena Kristín var lykilleikmaður KA liðsins í árangri þess á síðustu leiktíð og heldur hún áfram í því hlutverki á yfirstandandi tímabili. Eftir gott tímabil spilaði Helena Kristín með landsliðinu á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi og var burðarás í liðinu sem vann til bronsverðlauna á leikunum. Einnig hefur Helena Kristín sinnt blakþjálfun bæði hér heima og í Bandaríkjunum um árabil. Helena Kristín er frábær íþróttakona og mikil fyrirmynd fyrir unga og efnilega blakara.

Skvassmaður ársins - Skvassfélag Reykjavíkur

Gústaf Smári Björnsson

Skvassmaður ársins - Skvassfélag ReykjavíkurGústaf varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í ár og var sigursæll á skvassmótum ársins. Hann hefur stundað íþróttina frá árinu 2010 og hefur tekið miklum framförum síðastliðin 2 ár og þannig skipað sér sæti í skvasslandsliði Íslands.

Borðtennismaður ársins

Magnús Gauti Úlfarsson - Badmintonfélag Hafnarfjarðar

Borðtennismaður ársinsMagnús Gauti varð á árinu Íslandsmeistari fullorðinna annað árið í röð og í fyrsta sinn í tvíliðaleik og Íslandsmeistari í liðakeppni Raflandsdeildar karla. Á árinu sigraði hann einnig Arctic Open í einliðaleik og í tvenndarleik og hann tók þátt í heimsmeistaramótinu í einstaklingskeppni í Búdapest og Estonia Open. Eftir útskrift úr menntaskóla síðastliðinn vetur ákvað hann að taka sér hlé frá námi og helga íþróttinni allan sinn tíma. Hann flutti til Noregs þar sem hann æfir nú og keppir með félagsliðinu Heros. Magnús Gauti er metnaðarfullur og frábær fyrirmynd.

Borðtenniskona ársins

Nevena Tasic - Knattspyrnufélagið Víkingur

Borðtenniskona ársinsNevena flutti til Íslands frá Serbíu á árinu 2017. Hefur hún frá þeim tíma verið ósigrandi í kvennaflokki og Íslandsmeistari í liðakeppni Raflandsdeildar kvenna. Hún vann til fjögurra gullverðlauna á Arctic Open 2019, þ.e. í einliðaleik, tvenndarleik, tvíliðaleik og í liðakeppni kvenna. Á árinu keppti hún einnig á Estonia Open fyrir Íslands hönd auk þess sem hún sinnti þjálfun bæði hjá Víkingum og úrvalshópi yngri leikmanna. Nevena hefur verið mikill styrkur fyrir íslenska landsliðið þar sem hún leiðir vagninn, bæði á æfingum og í keppni. Nevena er frábær fyrirmynd og enn betri liðsfélagi.

Badmintonkona ársins

Margrét Jóhannsdóttir - Tennis- og badmintonfélag Reykjavíkur

Badmintonkona ársinsMargrét varð tvöfaldur Íslandsmeistari á árinu. Fjórða árið í röð varð hún Íslandsmeistari í einliðaleik, en hún varð einnig Íslandsmeistari í tvenndarleik ásamt Kristóferi Darra Finnssyni. Margrét og Kristófer unnu alþjóðlega mótið Iceland International 2019 og Margrét varð í 2. sæti í tvíliðaleik kvenna á sama móti með Sigríði Árnadóttur. Margrét varð Hleðslubikarmeistari í tvenndarleik en leikmaður sem er efstur á styrkleikalista sambandsins í lok tímabils hlýtur þann titil. Margrét hefur verið mjög mikilvæg fyrir íslenska landsliðið síðastliðin ár og á hún að baki 16 A-landsleiki en fyrsta A-landsleikinn spilaði hún árið 2013, þá 18 ára gömul. Margrét var færð í Meistaraflokk aðeins 16 ára gömul en hún á að baki fjöldan allan af Íslandsmeistaratitlum í unglingaflokki, sem og í A- og B-flokki. Margrét er sem stendur í 290. sæti heimslistans í tvíliðaleik kvenna ásamt Sigríði. Margrét hefur spilað á tveimur alþjóðlegum mótum á árinu en listinn er byggður á tíu bestu mótum leikmanna.

Badmintonmaður ársins

Kári Gunnarsson - Tennis- og badmintonfélag Reykjavíkur

Badmintonmaður ársinsKári er Íslandsmeistari í einliðaleik karla og er þetta áttunda skiptið í röð sem hann vinnur þennan titil. Kári hefur verið mikilvægur í landsliði Íslands undanfarin ár og spilar jafnan fyrsta einliðaleik karla. Kári spilaði sinn fyrsta A-landsleik árið 2010, þá aðeins 19 ára gamall. Kári hefur spilað 23 A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Kári tók þátt í Evrópuleikunum fyrr á árinu og stóð sig vel. Kári stefnir á þátttöku á Ólympíuleikunum 2020 en það er heimslistinn sem ræður hverjir öðlast keppnisrétt. Kári hefur tekið þátt í 22 alþjóðlegum mótum á árinu og hefur hann náð að vinna sig mikið upp heimslistann. Þegar hann tók ákvörðun um að ætla á Ólympíuleikana var hann í 523. sæti heimslistans í einliðaleik en hann er núna í 144. sæti listans. Listinn er byggður á tíu bestu mótum leikmanna. Kári er búsettur í Danmörku og núna í nóvember tók hann þá ákvörðun að þiggja boð í Center of Excellence sem er á vegum Badminton Europe og er staðsett í Holbæk í Danmörku. Þar býr og æfir Kári undir handleiðslu þjálfara á vegum Badminton Europe.
0063